Hvítfugli fækkar en fjöldi svartfugla breytist lítið milli 2017 og 2018

Niðurstöður bjargfuglavöktunar ársins 2018 hafa nú litið dagsins ljós og lesa má nánar um niðurstöðurnar í framvinduskýrslu sem finna má á vef Náttúrustofunnar. Að þessari bjargfuglavöktun koma fimm náttúrustofur en Náttúrustofa Norðausturlands fer með verkefnisstjórn. Vöktunin er unnin samkvæmt samningi við Umhverfisstofnun og fjármögnuð af sölu veiðikorta.

Vöktunin nær til fýls, ritu, langvíu, stuttnefju og álku og er hún tvíþætt. Annars vegar er fylgst með breytingum milli ára á fjölda bjargfuglategunda umhverfis landið og hins vegar er viðkoma þessara tegunda metin, að álku undanskilinni. Breytingar á fjölda fugla eru metnar í júní með sniðtalningum í björgum umhverfis landið. Viðkoma (ungaframleiðsla) er metin með talningum síðsumars sem og vöktunarmyndavélum sem staðsettar eru í fimm björgum.

Fýlsungar taldir í Ásbyrgi.  Thianthong
Fýlsungar taldir í Ásbyrgi. Thianthong

Niðurstöður sýna fram á verulega fækkun fýlssetra milli ára utan Vestfjarða og Grímseyjar þar sem var smávægileg fjölgun. Mest var fækkunin í Ásbyrgi (45%) og Drangey (42%). Í Ásbyrgi var fjöldi setra 2018 einungis 8% af hámarkinu 1997. Viðkoma fýls var sömuleiðis lélegri á öllum svæðum en árið 2017.

Rituhreiðrum fækkaði allnokkuð um land allt, nema Papey þar sem örlitla fjölgun mátti greina milli ára. Í Skoruvíkurbjargi hefur þeim fækkað um 86% frá 1994. Viðkoman var ágæt á SV-horni landsins sem og í Svalþúfu á Snæfellsnesi en léleg annars staðar. Verst var útkoman í Vestmannaeyjum þar sem enginn ungi komst á flug.

Langvíum fækkaði lítillega víðast hvar milli ára, nema í Hælavíkurbjargi, Grímsey og á Suðausturlandi þar sem smávægileg fjölgun átti sér stað. Fremur litlar breytingar var að sjá hjá stuttnefju milli ára, sem hefur annars fækkað mikið undanfarna 3 áratugi. Lítilsháttar fækkun var þó á Norðausturlandi og í Látrabjargi. Í Skoruvíkurbjargi hefur stuttnefju fækkað um 83% frá 1986. Álku fækkaði milli ára í Skoruvíkurbjargi og Krýsuvíkurbergi en fjölgaði í Grímsey, Ingólfshöfða og Látrabjargi. Viðkoma langvíu var misjöfn milli fuglabjarga en virðist hafa gengið betur í Grímsey og Elliðaey sumarið 2018 en árið áður. Almennt séð virðist stuttnefju ganga betur að koma upp ungum heldur en langvíu, sem er athyglisvert í ljósi langtímafækkunar stuttnefju.

Stuttnefjupar með unga sinn í Skoruvíkurbjargi.  Kolbeinsson
Stuttnefjupar með unga sinn í Skoruvíkurbjargi. Kolbeinsson

Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin