Á fimmtudag í síðustu viku fór forstöðumaður NNA ásamt Hlyni Ármannssyni, líffræðingi frá Hafrannsóknastofnun á Akureyri til þess að kryfja andanefju sem rekið hafði á land austan við Lónsós í Kelduhverfi í vikunni áður. Einnig voru með í för þau Elke Wald og Pere Morera frá Hvalamiðstöðinni á Húsavík.
Andanefjan var skoðuð og mæld í bak og fyrir en um var að ræða 6,5 m langt kvendýr. Auk þess voru tekin ýmiskonar sýni, m.a. magasýni. Sýnin verða send suður til Hafrannsóknastofnunarinnar þar sem hvalasérfræðingar munu taka þau til nákvæmrar skoðunar. Athyglisvert var að dýrið virtist hafa étið mikið magn af plasti en magi þess var troðfullur af einhverskonar umbúðaplasti. Það skal ósagt látið hvort plastið hafi valdið dauða dýrsins en það gæti vel hafa stíflað meltingarveg þess. Plastið í maga andanefjunnar hlýtur að vekja fólk til umhugsunar um umgengni mannsins við náttúruna.



