Hringdúfa á Húsavík

Sigurður Gunnarsson á Húsavík er mikill fuglaáhugamaður og er duglegur að gefa fuglum æti að vetrarlagi. Í vetur hefur hann verið með skógarþresti, svartþresti og gráþresti í fóðrun en á laugardaginn síðasta bættist hringdúfa (Columba palumbus) í hópinn. Þetta er í annað skiptið sem Hringdúfa sést á Húsavík en áður sást hún árið 1958. Hringdúfa er mjög stór dúfutegund, gráleit með áberandi hvítan blett á hálsinum. Bringan er ryðlit og á vængjum er hvítt þverbelti. Hringdúfa sem er algengur skógarfugl um mestalla Evrópu er árlegur flækingur hér á landi. Oftast koma þær að vorlagi og er þessi óvenju snemma á ferðinni. Líklegt er að sterkir austanvindar í síðustu viku hafi borið hana hingað til lands. Hringdúfur hafa sex sinnum reynt varp hérlendis svo vitað sé.

hringdufa

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin