Hringanóri í Húsavíkurhöfn

Miðvikudaginn 19. desember tóku vökulir starfsmenn Náttúrustofunnar eftir litlum sel sem spókaði sig á smábátabryggjunni fyrir utan Langanes húsið. Í fyrstu var talið að um ungan landsel væri að ræða en eftir töluverðar vangaveltur á veraldarvefnum þótti augljóst að hér var um hringanóra Pusa hispida að ræða! 

Hringanóri1

Heimkynni hringanóra eru norðurheimskautssvæðið allt og er hann einkennisselur Norður-Íshafsins og Ísland því á jaðri útbreiðslunnar. Hann leitast eftir því að vera í grennd við lagnaðarís árið um kring, sem hann hvílist á og notar til að kæpa á síðvetrar og snemma vors. Þar getur hann verið langt frá sjó með því að halda opinni lítilli vök sem gerir honum kleift að forðast ísbirni á ísnum og hafa aðgang að æti í sjónum. Því er ólíklegt að hringanóri hafi kæpt á Íslandi.

Hringanóri er minnstur norrænna sela. Hann svipar til ungs landsels en vöxturinn er öðruvísi, háls sver og stuttur og einkennandi andlit sem gerir hann „krúttlegan“ (trýnið minnir reyndar aðeins á kattartrýni). Feldurinn einkennist vanalega af fjölmörgum ljósum hringnum þó þeir séu takmarkaðir á þessum einstaklingi, en nafn hans er dregið af því.

Tegundin er fremur sjaldséð hér við land og sést þá einna helst með Norður- og Vesturlandi. Ekki er ólíklegt að þeir séu algengari en raun ber vitni enda fáir sem skoða seli sérstaklega. Helst er að finna hringanóra innfjarða þar sem lagnaðarís myndast gjarnan á veturna, t.d. fyrir botni Eyjafjarðar (þar sem myndin hér að neðan er tekin) og Hrútafjarðar, en einnig sjást þeir stundum á bryggjum í smábátahöfnum. 

Hringanóri2

Af öðrum sjaldséðum selum má nefna kampsel Erignathus barbatus sem er stærstur norrænna sela og sést hér við land nánast árlega, gjarnan innfjarða á lagnaðarís (eins og í nágrenni Akureyrar). Veiðihárin eru eitt af einkennum tegundarinnar, en þau eru ljós og löng og standa þétt saman. Einn slíkur nýtti Húsavíkurhöfn sem náttstað í september 2009, en mynd af honum er hér að neðan.

Hringanori3

Nánar má lesa sig til um seli við Íslandsstrendur í bókinni Íslensk spendýr sem Páll Hersteinsson ritstýrði og á vef Selaseturs Íslands. Við hvetjum áhugasama til að tilkynna Náttúrustofunni um óvanalega seli sem þeir kunna að rekast á!

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin