Heildarþekja kerfilstegunda í landi Húsavíkur nú á við sjö knattspyrnuvelli

Á síðustu árum hefur Náttúrustofan kortlagt útbreiðslu kerfilstegunda í landi Húsavíkur, allt frá Bakka að Saltvík. Í landi Húsavíkur er bæði að finna skógar- og spánarkerfil en mun meira er þó af skógarkerfli.

Skógarkerfill er hávaxin planta (0,3 – 1,5 m) af sveipjurtaætt. Hann var að öllum líkindum fluttur hingað til lands sem garðjurt á fyrri hluta síðustu aldar og hefur með tíð og tíma, þá sérstaklega upp úr síðustu aldamótum, náð að dreifa sér verulega og myndar víða þéttar breiður. Skógarkerfill er nú flokkaður sem framandi ágeng tegund hér á landi (www.nobanis.org). Kjörlendi hans er næringarefnaríkur og rakur jarðvegur. Hæð hans og það hversu þéttar breiður hann myndar veldur því að annar gróður á erfitt uppdráttar, tegundum fækkar verulega og það hefur í för með sér lélegri bindingu í jarðvegi sem aftur getur leitt til jarðvegseyðingar. Hér á landi er skógarkerfil helst að finna í vegköntum, frjósömum aflögðum túnum og á árbökkum, auk þess sem útbreiðsla hans í gömlum lúpínubreiðum hefur aukist mjög síðustu ár. Í sumum tilfellum hefur skógarkerfillinn jafnvel tekið lúpínubreiðurnar alveg yfir, enda er jarðvegur í þeim mjög næringarefnaríkur. Skógarkerfillinn dreifir sér bæði með fræjum og rótarskotum en fræin geta dreifst á milli svæða með margvíslegum hætti, s.s. með mönnum, dýrum, dekkjum bifreiða og vinnuvélum.

Fjölmörg sveitarfélög hafa nú ráðist í aðgerðir gegn útbreiðslu skógarkerfils þar sem hann þykir orðið vandamál en reynslan sýnir að erfitt getur reynst að uppræta hann. Þó eru nú ýmsar tilraunir til skoðunar eins og t.d. notkun svína í Bolungarvík (sjá https://www.ruv.is/frett/beita-grisum-a-kerfil-i-bolungarvik).

Skógarkerfill
Skógarkerfill

Spánarkerfill hefur verið flokkaður með tegundum sem ekki er vitað hvort geti orðið ágengar hér á landi með tímanum.  Hann er náskyldur skógarkerfli og líkist honum mjög en er þó auðþekktur á sterkri aníslykt og –bragði auk þess sem blöð hans og stöngull eru hærð og hann getur náð allt að tveggja metra hæð. Spánarkerfill á uppruna sinn að rekja til Evrópu og á sér svipaða sögu hér á landi og skógarkerfillinn. Hann hegðar sér svipað en enn sem komið er dreifir hann sér mun hægar. Mun erfiðara getur þó reynst að uppræta hann þar sem rætur hans verða mun stærri og öflugri en rætur skógarkerfils.

Spánarkerfill
Spánarkerfill

Náttúrustofan hóf kortlagningu kerfilstegundanna sumarið 2016 og var hún gerð í áföngum til ársins 2018. Báðar tegundir hafa náð að dreifa sér inn í víðáttumiklar lúpínubreiður í landi Húsavíkur, vegkanta, meðfram ám, lækjum og víðar. Margar skógarkerfilsbreiðurnar eru orðnar nokkuð víðáttumiklar. Mælingar Náttúrustofunnar sýna að nú þekja kerfilstegundirnar samanlagt að lágmarki tæplega 50.000 m2 á svæðinu frá Bakka að Saltvík. Stærstu breiðuna er að finna sunnan Þorvaldsstaðaár sunnan Holtahverfis, tæplega 8.800 m2 að stærð.

Stærsta breiða er 8.800 m2 að stærð eða eins og rúmlega einn fótboltavöllur.
Stærsta breiðan, sunnan Þorvaldsstaðaár, er 8.800 m2 að flatarmáli  Til samanburðar má geta þess að flatarmál knattspyrnuvallarins á Húsavík (gervigrasið) er um 7000  m2.

Til að kanna útbreiðsluaukningu skógarkerfils á síðustu þremur árum var í sumar ákveðið að hnitsetja á ný þær breiður sem blasa við í Skálamel í Húsavíkurfjalli og kortlagðar höfðu verið árið 2016 (sjá mynd að neðan). Þær mælingar leiddu í ljós að þekja kerfilsins í Skálamelnum hafði rúmlega tólffaldast á síðustu þremur árum, úr 172 márið 2016 í 2.130 márið 2019. Víðáttumikil útbreiðsla lúpínu í landi Húsavíkur er kjörlendi fyrir kerfilstegundirnar og miðað við þessar niðurstöður má gera ráð fyrir að útbreiðsla þeirra muni aukast mjög hratt og mikið á komandi árum verði ekkert að gert.

Útbreiðsla kerfils í Skálamel sumarið 2016 annars vegar og 2019 hins vegar. Ljósrauðir flákar sýna útbreiðsluna eins og hún var sumarið 2016 og rauðir punktar stakar plöntur. Appelsínugulir flákar sýna útbreiðsluna eins og hún er nú.
Útbreiðsla kerfils í Skálamel sumarið 2016  og 2019. Rauðir flákar tákna breiður árið 2016 og appelsínugulir flákar tákna breiður árið 2019. Rauðir punktar sýna staðsetningu stakra plantna árið 2016 en stakar plöntur voru ekki hnitsettar 2019.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin