Eins og áður var greint frá hér á heimasíðunni þá gaf Náttúrustofan út bókina Náttúrutúlkun – Handbók s.l. sumar. Bókin nýtist meðal annars landvörðum, leiðsögumönnum, kennurum og fleirum sem vilja tileinka sér aðferðir náttúrutúlkunar við leiðsögn í gönguferðum og við útikennslu.
Náttúrustofa Norðausturlands er rekin af Norðurþingi og Skútustaðahreppi með stuðningi ríkisins. Í vetur gaf Náttúrustofan þeim grunn- og leikskólum sem starfa innan þessara sveitarfélaga eintak af bókinni. Meðfylgjandi myndir eru teknar við þau tækifæri. Það er von Náttúrustofunnar að bókin nýtist skólunum við útikennslu og vettvangsferðir.
Bókin er einnig notuð sem kennslubók í náttúrutúlkun. Náttúrutúlkun er kennd á landvarðanámskeiðum Umhverfisstofnunar, í einum áfanga (Gönguferðir, leiðsögn og stígagerð) við Ferðamáladeild Hólaskóla – Háskólans á Hólum og í einum áfanga (Náttúrutúlkun / Leiðsögn ferðamanna) við Námsbraut í Náttúru og Umhverfisfræðum við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Höfundur bókarinnar, sem er jafnframt starfsmaður Náttúrustofunnar, hefur haft umsjón með þeirri kennslu í vetur.
Bókin fæst meðal annars hjá Náttúrustofu Norðausturlands, í gestastofum Vatnajökulsþjóðgarðs, þjóðgarðsins á Þingvöllum og þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Einnig fæst hún í bókabúð Þórarins Stefánssonar á Húsavík. Bókin hefur nú verið endurprentuð og er stefnt að því að koma henni í fleiri bókaverslanir.