Í desember fór að bera talsvert á haftyrðlum hér á norðausturhorninu. Óvenju margir sáust við ströndina og einstaka fuglar sáust inni í landi. Þann 27. desember gerði svo hvassa norðvestanátt og hraktist þá mikill fjöldi haftyrðla á land. Náttúrustofan fékk fréttir af þeim víða úr Þingeyjarsýslum og meðal annars langt frá sjó s.s. í Aðaldal og Ásbyrgi. Þeir fuglar sem lifðu hrakningarnar af voru næstu daga á eftir að berjast við að komast til sjávar aftur. Mikill fjöldi drapst og má finna talsvert magn af dauðum haftyrðlum í fjörum en einnig hafa þeir fundist dauðir víða inn til landsins. Allir þeir fuglar sem starfsmenn Náttúrustofunnar hafa skoðað, bæði lifandi og dauðir, hafa verið grindhoraðir. Hvort slæmt líkamsástand fuglanna er vegna sjúkdóma eða fæðuskorts er ekki vitað en ljóst er að óvenju mikið magn af þeim hraktist á land í desember.
Fleiri tegundir svartfugla bárust líka upp í fjörur undan veðrinu s.s. langvía, stuttnefja og lundi en um mikið færri einstaklinga af þeim tegundum er að ræða. Á hverjum vetri finnst talsvert af dauðum svartfuglum í fjörum á svæðinu þó magnið sé misjafnt milli ára. Í vetur er ekki hægt að segja að magnið sé óvenju mikið nema af haftyrðli sem einhverra hluta vegna er hér nú í mjög miklu magni.
Haftyrðill, sem ber fræðiheitið Alle alle, er minnstur þeirra svartfuglategunda sem lifa í Norður-Atlantshafi. Hann er aðeins um 21 cm langur og þyngdin milli 150 og 200 grömm. Þeir eru svartir á haus og baki en hvítir á kvið, kubbslega vaxnir með stutt nef. Varpstaðirnir eru frá vesturströnd Grænlands og austur til Novaja Zemlja og Frans Jósefslands í Norður-Íshafi.
Með hlýnandi loftslagi hafa varpstöðvar haftyrðils verið að færast norðar en hann fylgir mikið hafísbrúninni í fæðuleit. Hér áður fyrr var hann varpfugl á Íslandi en nú er talið að það sé hætt. Aðal varpstöð hans hérlendis var í Grímsey en frá 1997 hefur hann ekki orpið þar svo vitað sé. Hann er hins vegar algengur vetrargestur við Ísland, sérstaklega við Norður- og Austurland.
Það er misjafnt milli ára hve mikið er um haftyrðla við Ísland og hefur veðurfar og hafís áhrif á það. Haftyrðlar eiga það til að hrekjast undan sterkum vindum og berast þá oft langt inn á land, jafnvel upp á hálendi. Líklega eru það veikburða einstaklingar sem lenda í mestu hrakningum en þeir sem eru í góðu ásigkomulagi eiga auðveldara með að takast á við óblíð veðuröflin. Ekki þarf að hafa áhyggjur af stofni haftyrðla þrátt fyrir þessar hrakningar því þetta er einn stærsti sjófuglastofn í Norður-Atlantshafi og talið að í honum séu tugmilljónir para.