Haförn á Tjörnesi

Náttúrustofunni hefur borist tilkynning frá Kristjáni R. Arnarsyni, refaskyttu með meiru, um að ungur haförn hafii svifið yfir utanverðu Tjörnesi í gær. Þetta kemur ekki á óvart þar sem ungir ernir sjást nú óvenju oft á Norður- og Austurlandi. Meðal annars hefur þeirra orðið vart við Mývatn undanfarna vetur. Aukin tíðni ungra hafarna hér um slóðir er í takt við góða afkomu arnarstofnsins en óvenju margir arnarungar hafa komist á legg undanfarin ár.

Arnarstofninn telur nú yfir 60 varppör og hefur hann ekki verið stærri í um 50 ár. Ernir virðast nú vera að breiðast út fyrir hin hefðbundnu arnarsvæði vestanlands og er nú vitað um arnarvarp á Suðurlandi og við Húnaflóa. Ef svo heldur áfram sem horfir með góða afkomu arnarstofnsins má velta fyrir sér hvenær fyrsta arnarparið tekur upp á því að verpa á Norðausturlandi.

 


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin