Hærri vatnsstaða er nú í Lónum í Kelduhverfi en þekkt er áður og er ástæðan lokaður ós til sjávar. Það gerist oft þegar brim er mikið að laus sandur fyrir framan Lónsós kastast upp í ósinn og lokar honum. Við það hækkar vatnsstaðan ört í Lónunum enda er meðalrennsli um ósinn 19 rúmmetrar á sekúndu. Vatnið flæðir yfir svæðin umhverfis Lónin en þó mest til austurs yfir svokallaðar Flæðar sem þjóðvegur 85 fer um, og er það sem vegurinn sé staðsettur úti í stöðuvatni. Þetta er náttúrulegt ferli sem hefur án efa átt sér stað um langa tíð en undanfarin misseri hefur þetta gerst oft enda er mikill laus sandur framan við ósinn. Hækkuð vatnsstaða veldur vandræðum hjá fiskeldisfyrirtækinu Rifós sem er með kvíaeldi í Lónum. Bryggjan fer á kaf og vatn flæðir upp undir hús fyrirtækisins. Af þeim sökum hefur jarðýta verið notuð til að opna ósinn aftur þegar brim gengur niður eftir norðanáttir. Nú hefur verið mikið brim frá því um helgi og ósinn því haldist lokaður lengur en áður þekkist og vatnsstaðan orðin svo há að vatn er farið að flæða inn í skemmu Rifóss. Vatnið nær einnig svo langt til austurs að það nær langleiðina í Víkingavatn. Myndirnar sem hér fylgja með eru teknar í morgun (19. september 2013) en stefnt er að því að opna ósinn í dag enda brim gengið niður.
Menu