Gögn vöktunarmyndavéla komin í hús

Eitt af síðustu sumarverkum Náttúrustofunnar er að nálgast vöktunarmyndavélarnar fimm sem eru í umsjá stofunnar. Myndum síðastliðins árs er hlaðið niður og gengið úr skugga um að búnaðurinn sé í góðu lagi fyrir komandi vetur. Myndavélarnar eru staðsettar í Skoruvíkurbjargi, Grímsey, Hælavíkurbjargi, Látrabjargi og Elliðaey í Vestmannaeyjum og taka þær ljósmyndir af afmörkuðum hluta bjargs á klukkustundar fresti svo fremi sem nógu bjart er til myndatöku. Með þessum hætti hefur verið hægt að meta varpárangur langvíu, stuttnefju, ritu og fýls sem þar er að finna og er það aðaltilgangur myndavélanna.

Nú er búið að endurheimta myndir úr vélunum fimm og halda þær áfram myndatöku fram á næsta ár, að vélinni í Elliðaey undanskilinni en hún reyndist hafa orðið fyrir vatnsskemmdum. Þessar myndatökur gefa okkur ýmsar upplýsingar umfram varpárangur fuglanna, s.s. viðveru fugla í bjargi, tímasetningu varps og hvenær ungar yfirgefa bjargið en auk þess er áhugavert að sjá hvenær svartfugl og rita setjast upp í björgin.

Á þessu ári sást fyrst til svartfugla í bjargi í Skoruvíkurbjargi, þann 16. janúar. Þremur dögum síðar, eða 19. janúar, voru fuglar sestir upp í Elliðaey en í Hælavíkurbjargi sást fyrst til þeirra 2. febrúar. Loks settust þeir upp í Köldugjá í Grímsey 9. febrúar (1. mynd). Komutími í björg virðist sveiflast nokkuð milli ára. Árið 2019 sáust til dæmis svartfuglar fyrst í bjargi í Skoruvíkurbjargi 4. febrúar, eða 19 dögum seinna en 2020. Nær undantekningalaust er um langvíur að ræða svo snemma en fyrstu vísbendingar benda til að stuttnefjur setjist upp síðar í febrúar. Athyglisvert er að þó vetur konungur ráði enn ríkjum eru þessir sjófuglar strax farnir að huga að syllunum sínum (2. mynd).

1. mynd. Komutími svartfugla á varpstað í fjórum björgum umhverfis landið 2018-2020. Komutími er sýndur sem fjöldi daga frá 1. janúar (dagur 1 = 1. janúar).
1. mynd. Komutími svartfugla á varpstað í fjórum björgum umhverfis landið 2018-2020. Komutími er sýndur sem fjöldi daga frá 1. janúar (dagur 1 = 1. janúar).
2. mynd. Svartfuglar á varpstað í Hælavíkurbjargi 4. febrúar 2020, tveimur dögum eftir að fyrstu fuglarnir settust upp fyrir framan myndavélina. Flestir fuglanna, ef ekki allir, eru langvíur og eins og sjá má eru flestir komnir í sumarbúning þó aðstæður bendi til að sumar sé ekki alveg á næsta leiti.
2. mynd. Svartfuglar á varpstað í Hælavíkurbjargi 4. febrúar 2020, tveimur dögum eftir að fyrstu fuglarnir settust upp fyrir framan myndavélina. Flestir fuglanna, ef ekki allir, eru langvíur og eins og sjá má eru flestir komnir í sumarbúning þó aðstæður bendi til að sumarið sé ekki alveg á næsta leiti.

 

Ritur sjást að jafnaði um mánuði seinna í björgunum og er minni breytileiki á komudegi milli ára frá 2018 heldur en hjá svartfuglum. Í ár sáust þær fyrst í Skoruvíkurbjargi, þann 22. febrúar. Tveimur dögum síðar, 24. febrúar, voru þær sestar upp í Grímsey og daginn eftir (25. febrúar) í Vestmannaeyjum. Seinastar voru þær í Hælavíkurbjargi, 4. mars. (3. mynd).

3. mynd. Komutími rita á varpstað í fjórum björgum umhverfis landið 2018-2020. Komutími er sýndur sem fjöldi daga frá 1. janúar (dagur 1 = 1. janúar).
3. mynd. Komutími rita á varpstað í fjórum björgum umhverfis landið 2018-2020. Komutími er sýndur sem fjöldi daga frá 1. janúar (dagur 1 = 1. janúar).

Cristian Gallo hjá Náttúrustofu Vestfjarða aðstoðaði við endurheimt mynda frá Látrabjargi, Kristín Ósk Jónasdóttir hjá Umhverfisstofnun aðstoðaði við endurheimt mynda frá Hælavíkurbjargi og Marinó Sigursteinsson hefur aðstoðað okkur við umsjón vélarinnar í Elliðaey. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin