Það að fóðra og fylgjast með garðfuglum á veturna er dægradvöl sem margt fólk stundar. Gaman er að fylgjast með hegðun fuglanna en oft er hægt að sjá þá á mjög stuttu færi ef fóðurgjöfin er nálægt glugga. Stöku sinnum koma erlendir flækingar í garðana eins og silkitoppan sem myndin hér að neðan sýnir. Tiltölulega auðvelt er að lokka fugla í garð til sín með fóðurgjöfum á veturna. Það getur reyndar tekið svolítinn tíma í byrjun að fá fugla til að átta sig á fóðurgjöf ef gefið er í garði sem engin hefð er fyrir fuglafóðrun, en þegar fuglar hafa áttað sig á fóðrinu þá koma þeir reglulega og muna eftir staðnum milli ára. Það fer eftir fuglategundum hvaða fóðurgerðir hentar best og eins hvort fóðrið skuli stráð á jörðina eða hengt í tré. Fyrir áhugasama skal bent á garðfuglavefinn en þar er að finna upplýsingar um flest sem varðar fugla í görðum s.s. tegundir fugla, fóðurgerðir og skipulag.

Náttúrustofa Norðausturlands vill vekja athygli á hinni árlegu garðfuglaskoðun Fuglaverndar. Garðfuglaskoðunin fer þannig fram að fólk fylgist með fuglum í garðinum sínum í um klukkustund einhvern tímann á fjögurra daga tímabili og skráir hjá sér mesta fjölda af hverri tegund sem það sér. Niðurstöðurnar eru svo sendar til Fuglaverndar. Í ár stendur garðfuglaskoðunin yfir dagana 23. – 26. janúar en nánar má lesa um þennan viðburð á heimasíðu Fuglaverndar.