Landsvirkjun hefur nú birt rafræna frummatsskýrslu vegna Búrfellslundar, fyrirhugaðs vindorkuvers Landsvirkjunar og er hún nú til kynningar og athugasemda. Í skýrslunni eru meðal annars kynntar rannsóknir Náttúrustofunnar á fuglalífi á Hafinu norðaustan við Búrfell, sem unnar voru fyrir Landsvirkjun í samvinnu við Háskólann í Árósum. Markmið rannsóknanna var að lýsa grunnástandi fuglalífs á svæðinu og þeim áhrifum sem vindorkuverið gæti haft á fugla. Sambærilegar rannsóknir hafa ekki áður verið gerðar hér á landi, enda yrði Búrfellslundur fyrsta vindorkuverið á Íslandi.

Rannsóknin fór þannig fram að farfuglar á svæðinu voru kortlagðir að vori og hausti árið 2014 og þannig lagt mat á áflugshættu við vindmyllur í fyrirhuguðum Búrfellslundi. Við kortlagninguna var notast við ratsjá og sjónauka sem mælir bæði fjarlægð og flughæð með leysigeisla. Varpfuglar á svæðinu voru einnig kortlagðir til að lýsa grunnástandi svæðisins. Við mat á þéttleika varpfugla var notast við punkttalningar en þá er talið á fyrirfram ákveðnum punktum sem jafndreifðir eru um svæðið. Skýrsla Náttúrustofunnar, Fuglar og vindmyllur í Búrfellslundi, kom út í júlí 2015.





