Mikil veðurblíða hefur fylgt ljúfum sunnanblænum sem leikið hefur við okkur Þingeyinga síðustu vikuna. Farfuglarnir hafa nýtt sér þetta veðurfar og hafa hreinlega hrúgast inn síðustu daga. Náttúrustofan hefur í vor talið reglulega í Bakkakrók norðan Húsavíkur og endurspegla þær talningar þessar breytingar býsna vel. Mánudaginn 18. apríl sáust t.a.m. 8 tegundir á talningarsvæðinu en í morgun (25. apríl) hafði þeim fjölgað í 15. Fuglar dagsins í dag voru eftirtaldir: Svartbakur, silfurmáfur, hettumáfur, skúmur, jaðrakan, heiðlóa, stelkur, tjaldur, tildra, æður, stokkönd, rauðhöfði, grafönd, grágæs og skógarþröstur. Allt eru þetta íslenskir varpfuglar nema tildran sem er umferðafugl og kemur hér við á leið sinni frá V-Evrópu og NV-Afríku til Grænlands og NA-Kanada.

Af komutímum nokkurra farfugla má nefna að heiðagæsir sáust fyrst þann 16. apríl í Köldukinn og hrossagaukar komu hingað þann 20. apríl en þess varð vart bæði á Tjörnesi og í Laxárdal. Urðu hrossagaukarnir strax mjög áberandi en þeir mynda mjög merkileg hljóð með stélfjöðrunum þegar þeir fljúga yfir óðulum sínum.
Á sumardaginn fyrsta, 21. apríl, var sól og blíða í Mývatnssveit eins og annarsstaðar og merki vorsins augljós. Virtist sem flestar andategundir væru mættar að einhverju leyti svo og flórgoðar. Mikið á þó eftir að fjölga fram á vorið en alls eru um 15 þúsund endur í Mývatnssveit að jafnaði á sumrin.



Álftin er víða orpin í Þingeyjarsýslum og skv. Sverri Thorsteinsen sem fylgst hefur lengi með álftum í Þingeyjarsýslum hafa þær ekki byrjað jafn snemma síðastliðin 25 ár. Stokkendur og grágæsir eru líka farnar að huga að varpi. Í Bakkalandi eru stokkandakollur komnar upp í mýri og farnar að huga að varpi ef ekki orpnar. Þá var varplegur tjaldur í fjörunni í Bakkakrók.
Rjúpur eru orðnar mjög áberandi og þykjast menn merkja fjölgun í stofninum frá því í fyrra. Náttúrustofan tók þátt í rjúpnatalningum Náttúrufræðistofnunar Íslands á Tjörnesi sl. vor og mun að öllum líkindum gera það sama í ár. Talið er á 2,4 ferkílómetra svæði sem nær frá Hallbjarnastöðum að Ketilsstöðum. Talningar á þessu svæði hófust 1981 og hefur verið talið á því óslitið síðan.