Starfsemi Náttúrustofunnar hefur farið vel af stað á nýju ári. Tvö stór þjónustuverkefni sem byrjað var á á síðasta ári eru enn í fullum gangi. Verkefnin eru verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá, sem unnin er í samstarfi við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn fyrir Umhverfisstofnun, og Staðardagskrá 21 fyrir Húsavíkurbæ.
Auk þessara verkefna er unnið að tveimur rannsóknarverkefnum sem einnig hafa verið í gangi frá því á síðasta ári. Rannsókn á fæðu straumanda í sjó hófst síðastliðið sumar með því að safnað var skítasýnum við Köldukvísl á Tjörnesi en þar á sjónum er mikilvægur fellistaður straumanda. Unnið hefur verið að greiningu fæðuleifa í skítnum nú í vetur og sér nú fyrir endann á því verki. Hitt rannsóknarverkefnið er unnið í samstarfi við dr. Jón S. Ólafson, sérfræðing á Veiðimálastofnun og felst í rannsókn á smádýralífi í tjörnum á Búrfells- og Tunguselsheiði. Unnið hefur verið að greiningu krabbadýra úr sýnum sem tekin voru síðastiðið sumar.
Nýlega tók Náttúrustofan að sér uppfærslu Náttúrugripasafns Suður Þingeyinga og er nú unnið að því samhliða öðrum verkefnum. Verkið felst í að breyta áherslum í núverandi sýningu á fuglum safnsins og er stefnt að því að ljúka því fyrir vorið.