Framandi könguló

Á dögunum kom húsmóðir á Húsavík með torkennilega könguló hingað á Náttúrustofuna. Hafði húsmóðurin tekið eftir henni þegar hún var að gæða sér á jarðarberjum. Húsmóðurinni tókst að sjálfsögðu að fanga köngulóna og koma í krukku þrátt fyrir að köngulóin stykki til allra átta.

Starfsfólk Náttúrustofunnar tók við köngulónni og brá henni undir víðsjá og tók myndir. Eftir miklar vangaveltur og álit frá helstu köngulóasérfræðingum landsins kom í ljóa að um var að ræða svokallaða stökkkönguló (Salticidae). Ekki var úrskurðað um tegund.

Ekki er vitað til þess að stökkköngulær lifi hér á Íslandi að staðaldri. Þeir einstaklingar sem hingað berast koma því með erlendum varningi. Líklegast þykir að þessi könguló hafi borist til húsmóðurinnar húsvísku með fyrrgreindum jarðarberjum.

Í Evrópu eru þekktar 75 tegundir af ætt stökkköngulóa en alls eru þekktar yfir 4000 tegundir þessarar ættar í heiminum. Aðaleinkenni  stökkköngulóa er eins og nafnið gefur til kynna, hæfileiki til að stökkva. Stökkköngulær eru líka stundum kallaðar tígrisköngulær en það er vegna þess að háttalagi þeirra við veiðar hefur verið líkt við tígrisdýr. Við veiðar læðast stökkköngulær að bráðinni og stökkva svo á hana. Þegar þessar köngulær stökkva skjóta þær ávallt út „líflínu“ sem kemur sér vel ef þær eru t.d. á lóðréttum vegg.

stökkkönguló
Stökkkönguló.
Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin