Um miðjan ágúst s.l. samþykkt stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs fræðsluáætlun fyrir þjóðgarðinn en Vinir Vatnajökuls styrktu gerð hennar. Starfsmaður Náttúrustofu Norðausturlands, Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, stýrði gerð fræðsluáætlunar en að gerð hennar komu einnig fastir starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs, þau Agnes Brá Birgisdóttir, Guðmundur Ögmundsson, Helga Árnadóttir, Jóna Björk Jónsdóttir, Fanney Ásgeirsdóttir, Sigrún Sigurgeirsdóttir, Orri Páll Jóhannsson og Hrönn G. Guðmundsdóttir en tvö þau síðastnefndu eru nú farin til annarra starfa.
Vinna við gerð fræðsluáætlunar hófst á vordögum 2016 og lauk vorið 2018. Á tímabilinu var safnað gögnum um gesti og dagskrá þjóðgarðsins og haldnir fundir með starfsmönnum og samráðsaðilum allt í kringum jökulinn.
Fræðsluáætlunin skiptist í þrjá hluta; Stefnan, Staðan og Framtíðin. Í fyrsta hluta, Stefnan, er farið yfir helstu markmið fræðslustarfs í Vatnajökulsþjóðgarði, helstu viðfangsefni sem lögð verður áhersla á, helstu markhópa fræðslustarfs og hver áhersla í samstarfi þar af lútandi eigi að vera. Annar hluti, Staðan, er yfirlit yfir núverandi stöðu fræðslustarfs og helstu þætti sem hafa áhrif á stöðu mála. Í þriðja og síðasta hluta, Framtíðin, eru dregnar fram helstu áherslur, markmið og verkefni sem stefnt er að vinna að á næstu fimm árum. Fræðsluáætlunin gildir til fimm ára og stefnt er á endurskoðun hennar fyrir lok þess tímabils.
Með fræðsluáætlun er stigið stórt skref í átt að markmiðum er lúta að fræðslustarfi þjóðgarðsins og er m.a. kveðið á um í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð.
Sjá nánar á vefsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs en þar má jafnframt nálgast áætlunina.