Flórgoðaveiðar

Undanfarin ár hefur Náttúrustofan notast við svokallaða dægurrita við rannsóknir á farháttum og vetrardreifingu fugla. Þekking á þessum þáttum er mikilvæg þegar kemur að því að túlka stofnbreytingar hjá viðkomandi tegundum og tryggja vernd þeirra til framtíðar. Dægurritar safna upplýsingum um staðsetningu út frá birtutíma og hefur Náttúrustofan notað slík merki á svartfugla, ritur, fýla, skrofur og flórgoða. Dægurritar eru festir við hring um fót fuglanna og til að nálgast gögnin þarf að ná þeim aftur að ári liðnu eða síðar. Árangur rannsóknanna byggir á því hversu vel það gengur. 

IMG_1016
Flórgoði með dægurrita

 

Á árunum 2009-2012 setti Náttúrustofan út 46 dægurrita á alls 37 flórgoða á Víkingavatni og Ástjörn í Kelduhverfi. Endurheimtur hafa gengið með ágætum en alls hafa 25 dægurritar verið endurheimtir á árunum 2010-2015.

Í vor sáust tveir flórgoðar með dægurrita, annar á Víkingavatni og hinn á Ástjörn. Sá á Víkingavatni reyndist ekki vera varpfugl og því ekki hægt að veiða hann þar sem flórgoðar eru veiddir við hreiður. Ástjarnarflórgoðinn, sem merktur var þann 25. júní 2011, reyndist hins vegar vera á hreiðri eins og síðustu tvö sumur. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að ná honum, fyrst sumarið 2013 og aftur sumarið 2014 en án árangurs. Hann átti því ekki að sleppa þetta sumarið. Eftir tvær misheppnaðar tilraunir í sumar voru starfsmenn Náttúrustofunnar þó orðnir vondaufir. Það var svo þann 16. júní, eftir nokkra yfirlegu, sem hann loksins gaf sig, synti í netið og skilaði þar með af sér dægurritanum sem hann hafði borið í 4 ár. Dægurritinn gæti því skilað allt að þriggja ára upplýsingum um ferðir Ástjarnarflórgoðans, allt eftir því hvað rafhlöður hans hafa enst lengi

20150616_163741
Það var öllu tjaldað til, felubúningur frá toppi til táar

 

aaa
Ástjarnarflórgoðinn loksins mættur í netið

 

20150616_194111
Loksins handsamaður

 

 

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin