Flórgoðaveiðar í þágu vísindanna

Eins og greint var frá í frétt á heimasíðu Náttúrustofunnar þann 7. apríl s.l. stundar hún rannsóknir á farleiðum og vetrarstöðvum flórgoða. Rannsóknum er haldið áfram í sumar og hafa flórgoðar verið veiddir á Víkingavatni og Ástjörn í Kelduhverfi. Fuglarnir eru merktir og fá um leið hnattstöðurita (e. geolocator) sem mun gefa upplýsingar um farleiðir og vetrarstöðvar fuglanna.

IMG_5699
Flórgoðinn veiddur og kominn með stálmerki á hægri fót og hnattstöðurita á þann vinstri.

Kuldatíð í vor hefur bæði seinkað varpi flórgoðans og einnig virðast færri ætla að verpa þetta árið á Víkingavatni þó vortalningar hafi aldrei skilað eins mörgum flórgoðum þar og í ár. Fleiri þættir hafa líka haft áhrif á varp flórgoðans á Víkingavatni en varp hans þar er mjög háð því að hann hafi góðar stararflögur til að verpa í. Þar býr hann til flothreiður yst í flögunum næst vatninu. Í vor bar svo við að lítill álftahópur fór illa með eitt helsta og þéttasta varpsvæði flórgoðans við Víkingavatn þar sem flestir flórgoðar síðustu ára hafa verið veiddir. Álftirnar tóku vel til matar síns í einni af bestu stararflögunni og þegar flórgoðinn mætti á svæðið var hún ekki byggileg á að líta. Færri fuglar í varpi hefur gert það að verkum að erfiðara hefur reynst að veiða flórgoða, bæði til að nýmerkja og einnig til að endurheimta merkta flórgoða frá fyrri árum. Það sem af er sumri hefur aðeins einn flórgoði með hnattstöðurita frá fyrri árum verið endurheimtur og var hann merktur árið 2009. Hann kom því færandi hendi með mjög mikilvægar upplýsingar um dvöl sína síðustu tvö árin. Næstu daga verður haldið áfram að staðsetja merkta flórgoða við Víkingavatn og tilraun gerð til að ná þeim og fá þessar mikilvægu upplýsingar sem hnattstöðuritinn geymir.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Flothreiður flórgoðans fest haganlega við víðigreinar. Fljótandi nykra styður við hreiðrið.

Annar merktur fugl náðist á Víkingavatni í vor en sá hafði verið veiddur á hreiðri vorið 2004 og þá að minnsta kosti ársgamall. Hann veiddist svo aftur við hreiður á nákvæmlega sama stað nú 7 árum síðar sem merkir að hann er að lágmarki 8 ára gamall. Samkvæmt Euring, sem eru Evrópsk samtök um fuglamerkingar, var elsti merkti flórgoðinn 7 ára og því er hér um aldursmet að ræða. Líklegt er þó að flórgoðar geti orðið mun eldri en þetta því skyldar tegundir hafa náð hátt í 20 ára aldri. Búast má við að með auknum rannsóknum á flórgoða eigi þetta aldursmet eftir að vera slegið aftur.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Hugað að hreiðri flórgoðans en gæta þarf þess að eggin kólni ekki á meðan foreldrið er veitt.

Í vor var einnig ákveðið að veiða flórgoða við Ástjörn, innan Vatnajökulsþjóðgarðs, en þar hefur flórgoðavarp verið á uppleið síðasta áratuginn. Aðstæður við Ástjörn eru aðeins aðrar en við Víkingavatn. Flórgoðinn verpir þar í stararflögum en einnig festir hann flothreiður sín við víði- og birkigreinar sem slúta yfir vatnið í bröttum hlíðum meðfram tjörninni. Varp á Ástjörn hefur gengið betur í vor en við Víkingavatn. Líklega hefur kuldinn haft þar minni áhrif því þegar starfsmenn Náttúrustofunnar voru þar við veiðar höfðu nokkur pör þegar ungað út og önnur voru langt komin með varp á meðan varp var rétt að hefjast við Víkingavatn. Meðfylgjandi myndir voru teknar á veiðum við Ástjörn.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Flórgoðanum sleppt.
Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin