Flækingar í Þingeyjarsýslum

Haustið er góður tími til að leita flækinga en svo kallast þeir fuglar sem villast hingað til lands frá heimkynnum sínum annars staðar í heiminum. Ástæðan fyrir því að þeir flækjast hingað er að þeir lenda í óhagstæðum vindum og villast þannig af leið, yfirleitt frá varpstöðvum á vetrarstöðvar.

Þann 7. október sl. fóru þrír þingeyskir fuglaáhugamenn á stúfana til að kanna hvort eitthvað hafði borist hingað af flækingsfuglum með þeim haustlægðum sem komið hafa til landsins síðustu vikur. Þetta voru þeir Aðalsteinn Örn Snæþórsson, Gaukur Hjartarson og Guðmundur Örn Benediktsson.

Lítið sást af flækingsfuglum þó víða væri farið. Gráhegri var við Silfurstjörnuna í Núpasveit. Þyrnisöngvari var í rekaviðarhrúgu við Ásmundarstaði. Þyrnisöngvarar eru fremur sjaldgæfir flækingsfuglar hérlendis og hafa sést í um 30 skipti. Gransöngvari og tveir glókollar fundust í húsagörðum á Raufarhöfn. Gransöngvarar eru fremur algengir flækingsfuglar og glókollar eru orðnir talsvert útbreiddir varpfuglar á Íslandi. Þrír starahópar sáust, 12 við Ásmundarstaði, 13 við Höskuldarnes og 21 á Raufarhöfn. Starar verpa ekki á Sléttu, en koma þar nokkuð árvisst sem flækingsfuglar.

Farfuglar eru mikið til farnir. Aðeins sáust 4 lóuþrælar, 5 tildrur, 6 stelkar, 1 steindepill og 6 þúfutittlingar svo eitthvað sé nefnt. 30 skúfendur voru á Eggversvatni. Enn er talsvert eftir af grágæsum, álftum, heiðlóum og skógarþröstum.

Silkitoppa
Silkitoppur eru meðal þeirra flækingsfugla sem algengt er að finna hér á haustin. Þessi mynd er tekin á Húsavík í fyrrahaust en þá dvöldu nokkrar silkitoppur í bænum. Mynd: Gaukur Hjartarson.
WordPress Image Lightbox Plugin