Flækingar á ferð

Óvenju líflegt var í heimi fuglaskoðunar um helgina og minntu aðstæður helst á góðan haustdag þegar meiri líkur eru á komum flækingsfugla til landsins heldur en nú um hávetur. Á laugardagsmorgun tilkynnti Hilmar Valur Gunnarsson um fimm gæsir á Húsavík sem við nánari athugun reyndust vera ein akurgæs Anser fabalis og fjórar austrænar blesgæsir Anser albifrons albifrons. Skömmu síðar barst tilkynning frá Langanesi þar sem Guðjón Gamalíelsson hafði fundið sex akurgæsir. Akurgæs svipar til heiðagæsar en fætur og blettur í nefi eru appelsínugulir en ekki bleikir eins og á þeirri síðarnefndu. Austrænar blesgæsir eru keimlíkar grænlensku blesgæsinni sem fer hér um vor og haust, en goggur er bleikur, rákir á kvið færri og höfuð og háls ljósari en á þeirri grænlensku. Báðar þessar tegundir eru sjaldséðir gestir hér á landi en koma þó stundum að vetrarlagi, er þær leggjast á flakk þegar frosthörkur herja á hefðbundnar vetrarstöðvar þeirra á meginlandi Evrópu. Undanfarna viku er þó búið að tilkynna um samtals sextán akurgæsir en aðeins einu sinni áður hafa fundist fleiri hér á einu ári (32 fuglar árið 1981).

yk_ansfab140203_1s
Akurgæs (fyrir miðju) og austrænar blesgæsir á Húsavík, 3. febrúar 2014. Smellið á myndina til að stækka hana.

 

Er leið á laugardaginn bárust Náttúrustofunni myndir af torkennilegum fugli á Laugum í Reykjadal sem Guðmundur Smári Gunnarsson sá rölta utan við heimilið sitt. Sá reyndist vera sefþvari Botaurus stellaris, hegrategund sem aðeins hefur fundist hérlendis fimm sinnum áður. Sá fyrsti fannst reyndar á Húsavík 3. febrúar 1937 og hafa því tveir af sex fundist í Suður-Þingeyjarsýslu. Líklegt er að þeir komi hingað oftar en sökum útlits og lífernis getur reynst erfitt að rekast á þá.

sefþvari
Sefþvarinn á Laugum, 1. febrúar 2014

 

Í þessari óvenjulegu flækingagöngu, sem virðist fylgja austanáttunum sem hafa verið ríkjandi að undanförnu, hafa einnig fundist fáeinar vepjur Vanellus vanellus, bleshæna Fulica atra og sefhæna Gallinula chloropus  (þó ekki á Norðausturlandi) en allt eru það evrópskir fuglar að uppruna sem geta lagst á flakk um hávetur samfara erfiðum veðurskilyrðum.

Náttúrustofan hvetur áhugamenn til að senda inn tilkynningar um gæsir og aðra furðufugla, ásamt myndum ef þær eru við hendi, á netfangið yann@nna.is .


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin