Eins og áður hefur komið fram þá er Náttúrustofan með tvær fiðrildagildrur á starfssvæði sínu. Önnur þeirra er staðsett við Ás í Kelduhverfi, skammt austan Ásbyrgis.
Föstudagskvöldið 6. ágúst s.l. stóð Vatnajökulsþjóðgarður fyrir fræðslukvöldi um fiðrildi í Ásbyrgi þar sem Aðalsteinn Örn Snæþórsson líffræðingur og kennari hélt fræðsluerindi um fiðrildi í Gljúfrastofu og fór að því loknu með þátttakendur í gönguferð að Ási þar sem fiðrildagildran var tæmd með aðstoð ungra gesta. Rúmlega 30 gestir á öllum aldri mættu á fræðslukvöldið. Veður var hið ákjósanlegasta, fiðrildi sveimuðu allt í kring og höfðu gestir gaman af.
Aðalsteinn kenndi gestum að þekkja helstu einkenni vefara, feta og ygla, bæði á lirfu- og fiðrildastigi ásamt því að fræða gesti um tengsl fiðrilda við aðrar lífverur svæðisins. Í lok gönguferðar var brugðið á leik með yngstu þátttakendunum sem voru sérstaklega áhugasamir um allt það sem að fiðrildunum sneri.
Meðfylgjandi eru myndir frá þessu skemmtilega kvöldi.
























