Vorið 2007 hóf Náttúrustofa Norðausturlands fiðrildavöktun í Ási í Kelduhverfi sem er innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Er þetta í fyrsta skipti sem slíkt er gert á norðanverðu landinu en verkefnið er unnið í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands sem hefur séð um fiðrildavaktanir á sunnanverðu landinu frá árinu 1995. Þar er því komin mikil vitneskja um tegundir og flugtíma þeirra á Suðurlandi. Forvitnilegt verður að bera saman niðurstöður fiðrildaveiða á Norður- og Suðurlandi þegar fram líða stundir. Verða flugtímar og stofnsveiflur einstakra tegunda eins á báðum landsvæðunum eða frábrugðnar. Upplýsingar um fiðrildavöktun Náttúrufræðistofnunar Íslands má sá á heimasíðu hennar eða með því að smella hér.
Vöktunin fer þannig fram að fiðrildum er safnað árlega með ljósgildru sem höfð er uppi frá byrjun 16 viku ársins til loka þeirrar 44. Ljósgildran lokkar til sín fiðrildi sem í grandaleysi sínu fljúga á ljós og falla niður í gildruna þar sem þau sofna vegna svæfingarefnis sem þar er. Gildran er svo tæmd vikulega og veiðin geymd í frysti uns fiðrildin eru greind til tegundar og talin. Greint var frá niðurstöðum ársins 2007 hér á heimasíðu náttúrustofunnar þann 17.04.2008 og sjá má hér. Nú er talningum og greiningum fyrir árið 2008 að mestu lokið og verður greint frá helstu niðurstöðum hér á eftir. Ekki tókst að greina 5 eintök til tegundar og greiningar á nokkrum öðrum þarfnast staðfestingar og verða þau send til sérfræðings Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þetta breytir þó ekki heildarniðurstöðunum enda um mikinn fjölda að ræða.

Alls komu 5804 eintök í gildruna árið 2008 sem er rúmlega tvöföldun frá því árið 2007. Hluti af skýringunni er sá að sumarið 2008 var mun hlýrra en sumarið 2007. Fiðrildi eru mest á ferli þegar heitt og rakt er og hafa breytingar á hitastigi mikil áhrif á fjölda sem berst í gildrur. Þegar bornar eru saman hitatölur frá sjálfvirku veðurathugunarstöðinni í Ásbyrgi þá sést að á gangtíma gildrunnar árið 2008 var meðalhitinn hálfri gráðu meiri en árið 2007 eða 7,5 gráður á móti 7,0 gráðum. Langmest af fiðrildum berast í gildruna á um 10 vikna tímabili frá 30. til 39. viku (23. júlí til 30 september) eða um 95% og eru ástæðurnar tvær. Annars vegar eru margar tegundir á ferli á þessum tíma en hver tegund er yfirleitt ekki á ferli nema á um 5 til 10 vikna tímabili árlega. Hins vegar er sól farin að lækka á lofti en fiðrildi sækja mest í ljósgildruna í rökkri. Á þessu 10 vikna tímabili var hitamunur áranna næstum þrjár gráður eða 7,9 gráður árið 2007 en 10,8 gráður árið 2008.






Þó veðurfar skipti miklu máli um hve mikið af fiðrildum berist í gildrur þá er einnig áramunur á fjölda einstakra tegunda. Þetta er vel þekkt þó menn taki frekar eftir afleiðingum af áti lirfanna en flugi fiðrildanna sjálfra. Þannig ollu jarðyglulirfur miklum skemmdum á heiðargróðri í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1975 og árið 2003 fóru lirfur tígulvefara og birkifeta illa með skóginn í Ásbyrgi sem aldrei varð almennilega grænn það sumarið.



Alls er búið að greina 22 tegundir fiðrilda í veiðinni 2008 en 5 eintök eru enn ógreind og er þar um að ræða a.m.k. 3 tegundir. Þetta er aðeins meira en árið 2007 en þá komu 21 tegund í gildruna. Birkifeti, garðygla, gulygla og dílamölur komu í gildruna árið 2008 en veiddust ekki árið 2007. Gammayglu, gráyglu og flikruverfara vantaði hins vegar í veiðina 2008.
Sú tegund sem var algengust árið 2008 var grasvefari og komu 2548 eintök í gildruna sem er 43,9% af heildarfjöldanum. Árið 2007 komu hins vegar aðeins 229 grasvefarar í gildruna sem var 8% af fjöldanum það ár. Þetta er rúmlega 11 faldur munur og er hæpið að skýra þennan mun út frá hitastiginu einu saman, það er því ljóst að mun meira var um grasvefara árið 2008 en 2007. Næst algengasta tegundin árið 2008 var tígulvefari en alls komu 1790 eintök sem er svipað og árið áður þrátt fyrir að það hafi verið mun hlýrra á gangtíma tegundarinnar árið 2008 en 2007. Fjöldi tígulvefara hefur því væntanlega verið mun meiri árið 2007 en 2008. Brandygla var langalgengasta yglutegundin eins og árið áður en alls komu 543 eintök af brandyglu. Mun minna kom af öðrum tegundum.