Farfuglarnir koma

Síðustu viku hafa farfuglarnir okkar verið að dúkka upp kollinum hver á eftir öðrum eftir vetrarfrí í útlöndum. Þær tegundir sem hafa verið að tínast til landsins undanfarna daga eru t.a.m. sílamáfur, skógarþröstur, tjaldur, álft og heiðlóa.

Skógarþröstum hefur fjölgað mjög síðustu daga en skv. heimildum Náttúrustofunnar varð þeirra fyrst vart hér í Þingeyjarsýslum þann 19. mars  á Kópaskeri. Á Húsavík má nú heyra í skógarþröstum syngjandi um allan bæ. Í Kelduhverfi sást vorboðinn ljúfi, heiðlóa, um páskana auk þess sem vart varð við grágæsir. Þá virðist álftum vera að fjölga í Þingeyjarsýslum en allmargar hafa hér þó vetursetu.

Við sjávarsíðuna eru merki vorsins víða og má fyrir það fyrsta nefna fýlinn sem kominn er í björgin. Dílaskörfum hefur fækkað á svæðinu og er það einkum vegna þess að fullorðnir dílaskarfar sem hafa hér vetursetu eru farnir á varpstöðvar við Breiðafjörð og Faxaflóa. Þá eru straumendur farnar að hópa sig á völdum stöðum en þær dvelja á sjó við ströndina yfir veturinn. Við Lynghöfða á Tjörnesi töldust þannig yfir 200 straumendur þann 17. mars sl. þegar starfsmaður Náttúrustofunnar var þar á ferð. Líklegt er að þessar straumendur byrji að fikra sig upp Laxá eða Skjálfandafljót í seinnihluta apríl.

Vænta má að farfuglum fjölgi nú með hverjum deginum og eru upplýsingar þess efnis vel þegnar. Áhugasömum bent á að hringja í síma 464 0450 eða senda tölvupóst á nna@nna.is.

Lóa
Lóan sást í Kelduhverfi á dögunum.

Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin