Farfuglarnir flestir komnir

Hér verður farið yfir komutíma þeirra fugla sem til þessa hafa sést. Þrjár álftir í Núpasveit þann 25. febrúar gætu hafa verið fyrstu far-álftir vorsins. Næsti farfuglinn, eins og áður hefur komið fram, var stakur tjaldur við Héðinshöfða 7. mars. Síðan liðu næstum þrjár vikur þar til næstu fuglar sýndu sig, eða 27. mars. Þann dag sáust lómar á sjó í Kelduhverfi þó þeir geta vel hafa komið fyrr. Með þeim var einnig stakur skúmur. Storm- og sílamáfar sáust á Akureyri á meðan fyrsti skógarþröstur vorsins sýndi sig á Víkingavatni. Daginn eftir var brandandarsteggur mættur við Eyjafjarðará. Þann 29. mars sást svo stök grágæs í aðflugi í innanverðum Eyjafirði, tveimur dögum síðar voru fáeinar komnar við Laxamýri og í Reykjahverfi. Rauðhöfða- og urtendur sáust við Eyjafjarðará þann 2. apríl og degi síðar voru þar mættar grafendur sem og í Mývatnssveit þar sem fyrstu flórgoðarnir voru komnir (utan þeirra sem höfðu þar vetursetu). Fyrstu heiðagæsir vorsins sáust í Þistilfirði 6. apríl en þennan sama dag voru tveir himbrimar við Eyjafjarðará. Tvær hrafnsendur sáust við Húsavík 8. apríl.

Fuglalífið tók mikinn kipp dagana 9.-10. apríl í kjölfar hlýrra og sterkra sunnanvinda. Segja má að sveitirnar hafi fyllst af gæsum þessa tvo daga, blesgæsahópur sást við Holtakot í Bárðardal fyrri daginn en helsingjar voru komnir víða seinni daginn, frá Eyjafirði austur á Tjörnes. Nokkrar margæsir sáust meira að segja við Ásmundarstaði á Sléttu en þær eru fremur sjaldséðir gestir á þessu landshorni. Stakar skúf- og duggendur sáust í Kelduhverfi þann 9., og þann dag sáust fyrstu tvær heiðlóurnar austur á Sléttu meðan hrossagaukur var hneggjandi við Lund í Öxarfirði. Einnig fjölgaði stelkum lítillega við Akureyri og fyrstu fimm tildrurnar sáust á Sléttu. Fimm þúfutittlingar flugu svo yfir Víkingavatn þann 10. en þá voru heiðlóur komnar í hópum á Húsavík og suður í Reykjadal. Ekki má gleyma gargöndum sem sáust þennan sama dag á Víkingavatni og í Aðaldal. Fyrsta sandlóan sást við Bakkakrók rétt norðan við Húsavík 13. apríl og daginn eftir voru fyrstu tveir jaðrakanarnir við Hörgárósa í Eyjafirði. Lundar sáust á sjó utan við Húsavík þann 16. og tveimur dögum síðar voru fyrstu fimm lóuþrælarnir við Gáseyri í Eyjafirði og stök maríuerla á Húsavík. Skeiðandarpar var mætt í Kelduhverfi 19. apríl. Fyrstu tveir steindeplarnir sýndu sig á Höfðagerðissandi á Tjörnesi 20. apríl sem er óvenjusnemmt. Og daginn eftir voru nokkrir rauðbrystingar komnir á Sléttu. Hinn 23. apríl skilaði tveimur farfuglum, spóa í Reykjadal og stökum kjóum í Kelduhverfi og Aðaldal. Fyrstu kríurnar sáust svo loks við Ásmundarstaði á Sléttu þann 29. apríl.

Nú bíðum við átekta eftir fyrsta óðinshananum sem oft sést um þetta leyti. Sanderlurnar koma svo fljótlega í kjölfarið en síðastur allra varpfugla er þórshaninn sem kemur yfirleitt seinnipartinn í maí.

Heidagæsir og helsingjar
Heiðagæsir Anser brachyrhynchus og helsingjar Branta leucopsis á túni við Laxamýri.
Mariuerlukarl
Maríuerlukarl Motacilla alba í vorskrúða.
Margaes
Margæs Branta bernicla (til vinstri) með grágæsum Anser anser í Reykjadal, 23. apríl 2011.

 


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin