Fuglaáhugamaðurinn Gaukur Hjartarson tilkynnti Náttúrustofunni fyrir skömmu að hann hefði fundið torkennilega fiska í baðlóninu sunnan Húsavíkur. Taldi hann að um fangasiklíður Cichlasoma nigrofasciatum væri að ræða en slíkir fiskar eru algengir búrfiskar hér á landi.
Náttúrustofan fór á stúfana til þess að kanna málið og lagði tvær smáfiskagildrur í lónið. Ætlunin var að athuga hvort fiskarnir hefðu hugsanlega náð að fjölga sér þarna, hvort um væri að ræða fleiri tegundir og hvort einhver munur væri á búsvæðum (grjót vs. gróður). Alls veiddust 11 fiskar og allir voru þeir fangasiklíður. Voru þeir af öllum stærðum allt frá því að vera um 1 cm upp í 9 cm. Svo virtist því sem þessar fangasiklíður hafi náð að fjölga sér í lóninu og lifi bara ágætu lífi. Í grjótinu veiddust bara stórir fiskar (7 – 9 cm) en í gróðrinum voru þeir minni. Af þessu veiðiátaki virðist því sem ungviðið haldi sig meira í gróðrinum.

Fangasiklíður heita á ensku „Convict cichlids“ en búningur þeirra þykir minna á fangabúninga fyrr á tímum, gráblár með svörtum rákum. Fangasiklíður geta orðið allt að 12 cm langar. Kjörhiti fangasíklíða er talin vera 24°C, en það er ekki fjarri vatnshita baðlónsins sem er affall frá Orkuveitunni.
Líklegra er talið að fangasiklíðurnar hafi borist í baðlónið fyrir tilstuðlan manna frekar en að þær hafi borist hingað með fuglum eða krókódílum frá Ameríku. Hafa ber í huga að það er mjög varhugavert að sleppa framandi lífverum út í íslenska náttúru og í rauninni á slíkt ekki að eiga sér stað. Þó svo að í þessu tilviki sé nokkuð ljóst að fiskarnir munu ekki dreifa sér annað vegna þess hversu háðir þeir eru háum vatnshita, þá er alltaf hætta á því að tilkoma þeirra inn í vistkerfið geti haft neikvæð áhrif. Hættan felst aðallega í sjúkdómum og sníkjudýrum sem fiskarnir gætu hugsanlega borið með sér eða þróað í nýju vistkerfi.


