Í dag sneri ein af dætrum Húsavíkur aftur til síns heima eftir rúmlega mánaðardvöl í Reykjavík. Þetta var ung fálkadama sem krakkar á Húsavík björguðu þann 12. nóvember eftir að hún hafði verið skotin. Greint var frá því í frétt hér á nna.is þann 18. nóvember sl.
Síðastliðinn rúman mánuð hefur fálkadaman verið í endurhæfingu í Húsdýragarðinum eftir að dýralæknar gerðu að sárum hennar. Það var svo í dag að dr. Ólafur K. Nielsen, fálkasérfræðingur, kom fljúgandi (í flugvél) með hana norður yfir heiðar til þess að sleppa á þeim stað þar sem hún náðist. Með honum í för var Sverrir Thorstensen fuglaáhugamaður á Akureyri.
Á móti þeim félögum og fálkadömunni tók húsvísk sendinefnd skipuð bæjarstjóra og nokkrum ungum Húsvíkingum. Bauð sendinefndin fálkann velkominn aftur til Húsavíkur. Meðal ungmennanna voru þau Friðrik Marínó og Ruth Ragnarsbörn, sem fönguðu fálkann á sínum tíma ásamt bróður sínum Arnóri Aðalsteini.
Áður en dömunni var sleppt var hún merkt með stálmerki. Af barmi Þorvaldsstaðagisi flaug hún svo skömmu síðar á vit frelsisins. Náttúrustofan bauð að því loknu bjargvættum fálkans í jólakökur og gos til að halda upp á giftusamlega björgun.












