Fálki og hnúðsvanur skotnir í Þingeyjarsýslum

Náttúrustofunni var á dögunum fenginn fallegur fálki sem verið hafði í fóstri hjá Ragnari Þór Jónssyni og fjölskyldu að Laugarholti á Húsavík. Sonur Ragnars hafði fangað fuglinn eftir að hann hafði sést ófleygur í bakgarðinum að Laugarholti. Fálkinn þreifst vel í góðri umsjá fjölskyldunnar, át vel og var afar spakur. Hinsvegar var ljóst að eitthvað var að, því vinstri vængur fuglsins lafði greinilega.

Náttúrustofan hafði samband við Ólaf K. Nielsen fálkasérfræðing og í samráði við hann var ákveðið að senda fuglinn suður til frekari skoðunar. Fór fálkinn með flugi suður til Reykjavíkur á miðvikudagsmorgunn. Þar tók starfsfólk Húsdýragarðsins á móti honum en það hefur mikla reynslu af því að taka á móti löskuðum fuglum og koma þeim til heilsu. Eftir að hafa verið röntgenmyndaður kom í ljós að fálkinn hafði verið skotinn. Voru högl bæði í búk og í vængnum sem reyndist vera brotinn. Dýralæknir gerði að sárum fálkans og er vonast til þess að hann nái sér að fullu. Verður fálkinn hafður í endurhæfingu í Húsdýragarðinum þar til að talið verður fært að sleppa honum.

Um leið og fálkinn var röntgenmyndaður hnúðsvanur sem verið hafði fastagestur í Kelduhverfi til margra ára en fannst dauður á Hólskrók í fyrrahaust. Sá reyndist einnig hafa verið skotinn því í honum voru högl. Hnúðsvanurinn hafði glatt augu fuglaskoðara til margra ára því hann var árviss gestur í  Kelduhverfinu. Kom hann iðulega snemma vors og fór seint á hausti. Hnúðsvanir eru tignarlegir fuglar og fallegir enda hafa þeir löngum myndskreytt ýmsar ævintýrasögur og kannast Íslendingar e.t.v. helst við þá þaðan.

Það er afar dapurt að menn skuli leggjast svo lágt að skjóta þessa fugla. Fyrir utan það að vera harðbannað samkvæmt lögum kemur þetta óorði á þá sem með skotvopn fara og í raun okkur Þingeyinga alla.

IMG_0182
Fálkinn viðkunnalegi sem skotið var á við Húsavík. Sjá má að vinstri vængur fuglsins lafir en annað beinið í framvæng var brotið.

Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin