Elsta íslenska álkan

Ýmislegt óvænt getur komið upp þegar unnið er við rannsóknir á svartfuglum í íslenskum björgum. Þann 22. júní 2016 voru starfsmenn Náttúrustofunnar staddir við Bjargtanga á Látrabjargi við endurheimtur dægurrita af svartfuglum. Þar höfðu m.a. álkur verið merktar með slíkum tækjum en lesa má um niðurstöður þeirrar rannsóknar í grein sem kom út fyrr á þessu ári þar sem skoðuð er dreifing og svæðanotkun þriggja svartfuglategunda utan varptímans. Áður hefur verið fjallað stuttlega um þessar rannsóknir hér á heimasíðunni og í fjölmiðlum og verður ekki farið nánar út í það í þessari frétt: sjá hér, hér, hér og hér.

Við leit að merktum álkum náðist fugl sem reyndist bera gamalt stálmerki frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hluti merkisins var orðinn mjög eyddur og ólæsilegur en þó tókst að finna út úr númeri merkisins sem var 457064. Endurheimtan var tilkynnt til Náttúrufræðistofnunar og fyrr á þessu ári bárust loks upplýsingar um merkingu þessa fugls. Reyndist álkan hafa verið merkt á sama stað þann 4. júní 1987 af Arnþóri Garðarssyni, þá sem fullorðinn einstaklingur í varpi (a.m.k. 2ja ára gömul). Þetta reyndist nýtt aldursmet íslenskrar álku, fuglinn hefur verið a.m.k. 31 árs gamall við endurheimtu. Fyrra met átti álka sem merkt var sem ungi í Grímsey 11. júlí 1982 og var skotin í Eyjafirði 15. desember 2010 (rúmlega 28 ára gömul).

Heims- og Evrópumetið á hins vegar velsk álka sem náði 42ja ára aldri. Var hún merkt sem ungi á eyjunni Bardsey 2. júlí 1964 og endurheimtist á sömu eyju 25. júní 2004 ). Hún er jafnframt annar elsti fugl sem endurheimst hefur á Bretlandseyjum. Í N-Ameríku er elsta þekkta álkan 28 ára gömul (https://www.pwrc.usgs.gov/bbl/longevity/longevity_main.cfm).

Álkupar í Skoruvíkurbjargi á Langanesi sumarið 2017.
Álkupar í Skoruvíkurbjargi á Langanesi sumarið 2017.

Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin