Hrun í íslenska duggandastofninum?

Duggandapar. NNA/Yann Kolbeinsson

Í lok árs 2023 gaf Náttúrustofa Norðausturlands (NNA) og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (RAMÝ) út skýrslu undir heitinu “Ástand fuglastofna í Þingeyjarsýslum 2021-2023”. Skýrslan skýrir frá nýjustu upplýsingum í viðamiklu vöktunarverkefni sem nær til flestra fuglategunda í Þingeyjarsýslum. Í skýrslunni er lögð áhersla á árin 2021-2023, frá útgáfu síðustu samantektar, en niðurstöður byggja sumar á 30-40 ára vöktun aftur í tímann. Auk gagna frá NNA byggja niðurstöður mikið til á vöktun RAMÝ og Líffræðistofnunar Háskóla Íslands. Á síðustu árum hefur vöktunin verið unnin í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ).

Eðlilegt er að fuglastofnar vaxi og hnigni á víxl í síbreytilegu umhverfi og varasamt að lesa mikið úr stofnstærðarniðurstöðum einstakra talningaára. Því er langtímavöktun sem þessi mikils virði. Niðurstöður sýna að á síðustu 30 árum hefur stofnþróun margra tegunda í Þingeyjasýslum verið á niðurleið. Þar sem Þingeyjarsýslur eru höfuðheimkynni ýmissa vatnafugla á Íslandi, t.d. duggandar, gefa niðurstöður vísbendingar um stofnþróun sömu tegunda á landsvísu. Auðvelt er að tínast í svo umfangsmikilli upptalningu tegunda og verður hér fjallað sérstaklega um duggönd (Aythya marila) þar sem fækkun hennar í Þingeyjarsýslum síðustu áratugi veldur áhyggjum.

Duggönd er norðlæg kafönd sem verpur umhverfis allt norðurhvel. Hún lifir á botnlægum liðdýrum, lindýrum og tvívængjum í vatnsyfirborði á varptíma.[i] Hérlendis verpur hún við vötn og tjarnir á láglendi jafnt sem hálendi um nær allt land. Hún er farfugl sem fer að mestu til Bretlandseyja og strandsvæða Hollands á veturna en fáein hundruð fugla hafa vetursetu hér (200-500 fuglar skv. vetrarfuglatalningum NÍ 2011-2023).

Endurheimtur dugganda á vetrarstöðvum sem merktar voru á Íslandi 1933-2023. Um er að ræða 59 endurheimtur, þar af 43 á Bretlandseyjum en af þeim er 31 frá Írlandi. Af þessum 59 endurheimtum drápust 5 í fiskinetum, 38 voru skotnar og 4 „veiddar“ (ýmist skotnar eða drepist í neti) (gögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands).

Við Mývatn var duggönd lengi vel algengasta andartegundin og verpur hún hvergi í meiri þéttleika hérlendis. Fylgni er á milli fæðuframboðs undangengins sumars og komu fullorðinna fugla vorið eftir. Nýliðun er einnig mjög beintengd fæðuframboði á ungatíma.[i]

Vetrarstofnstærð dugganda dróst saman um 38,1% í norðvestur Evrópu milli tímabilanna 1988-1991 og 2015-2018. Fækkunin var mest á Írlandi (58% úr 4.000 í 1.700 fugla), Bretlandi (78% úr 8.000 í 1.800 fugla) og Hollandi (56% úr 170.000 í 75.000 fugla).[i] Þetta eru þau svæði sem íslenski duggandastofninn heldur til á yfir veturinn. Á sama tíma fjölgaði duggöndum austar í norðanverðri Evrópu (Þýskalandi, Póllandi, Svíþjóð og Eistlandi).[ii]

Duggönd safnast saman á tiltölulega fáum strandsvæðum að vetri til og er sérlega viðkvæm fyrir breytingum sem kunna að verða á þessum afmörkuðu svæðum. Helstu ógnir við vetrarafkomu er; meðafli sem þó fer minnkandi í vestur Evrópu, og takmarkað framboð á aðgengilegri vetrarfæðu syðst og vestast á útbreiðslusvæði hennar. Á sama tíma virðist hlýnandi loftslag auka framboð á hentugum vetrarsvæðum austar en þar er meðafli enn mikill.[ii]

Duggöndum við Mývatn virtist fækka milli 1950-1975 en fjölgaði þá aftur fram til 1983 (þá 2.000 pör). Síðan þá hefur þeim fækkað og vert að skoða þá fækkun sérstaklega. Talningar á suðvesturhorninu benda til að duggönd hafi ekki einungis fækkað í Þingeyjasýslum heldur víðar um land en langstærsti hluti stofnsins virðist halda til í Þingeyjasýslum. Tegundin er nú komin á válista samkvæmt heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands og flokkuð sem tegund í hættu.[iii]

Vorið 2023 fundust 580 duggandasteggir á vöktunarsvæðum Þingeyjarsýslna og hafa þeir ekki verið færri frá upphafi talninga. Fjöldi steggja að vori virtist ná einhverskonar stöðugleika eftir langvarandi fækkun um 2015 en fækkaði svo verulega 2023. Stofnþróunin er niður á við, hvort heldur sem horft er 10 á aftur í tímann (28% fækkun) eða til síðustu 30 ára (72% fækkun). Duggandasteggjum í felli hefur einnig hríðfækkað eða um 92% á 30 ára tímabili.


Fjöldi duggandasteggja í Þingeyjarsýslum frá 1994 til 2023. ATH fjöldi á x-ás er ekki sá sami á báðum gröfum. A) Fjöldi steggja í Mývatnssveit, á Víkingavatni og í Svartárkoti. Aðhvarfsgreining sýndi neikvæða leitni (p < 0,001) yfir tímabilið eða samtals 72% fækkun. B) Fjöldi steggja í felli síðsumars í Mývatnssveit. Aðhvarfsgreining sýndi neikvæða leitni (p < 0,001) yfir tímabilið eða samtals 92% fækkun. A) – Number of male Greater Scaups in spring in Mývatnssveit, Vikingavatn and in Svartárkot 1994-2023. B) – Number of moulting male Greater Scaups in late summer in Mývatnssveit 1994-2023.

Ljóst er að ógnir steðja að duggöndinni úr öllum áttum. Íslenski stofninn heldur til á vetrarsvæðum þar sem fækkun á sér stað og aðgengi að hentugum vetrarsvæðum virðist takmarkað, a.m.k. þegar litið er til vestanverðrar Evrópu. Færri duggendur virðast skila sér í Þingeyjasýslur að vori og steggir virðast yfirgefa svæðið fyrr að sumri. Nýliðun, sem einnig er á niðurleið, og koma fugla á varpsvæði er talin nokkuð beintengd fæðuframboði á varp- og ungatíma. Lélegra fæðuframboð á varpstöðvum bætist ofan á hækkandi vetrardánartíðni og ekki hjálpar til ef fuglar hefja varp í lélegu ástandi eftir vetur með takmörkuðu fæðuframboði. Góðu fréttirnar eru þær að frá og með haustinu 2023 hafa duggendur verið friðaðar á Írlandi sem kemur m.a. íslenska stofninum til góða enda bentu 38 af 59 endurheimtum til þess að skotveiði skýri hluta vetrardánartíðni íslenskra dugganda. Að auki hefur meðafli í Norðursjó dregist verulega saman en hann var lengi talinn skýra mikinn hluta vetrardánartíðni dugganda við strendur Hollands og Þýskalands.[i] Spurning er hvort sú breyting og hugsanlega aukið framboð hentugra fæðusvæða austar í Evrópu dugar til að bjarga íslenska stofninum frá frekari fækkun næstu misserin.

[i] Arnthor Gardarsson, og Árni Einarsson (2002). Resource limitation of diving ducks at Myvatn: Food limits production. Aquatic Ecology 38: 285–295

[ii] Marchowski, D., Ławicki, Ł., Fox, A.D. et al.(2020). Effectiveness of the European Natura 2000 network to sustain a specialist wintering waterbird population in the face of climate change. Sci Rep 10, 20286 á: https://doi.org/10.1038/s41598-020-77153-4

[iii] Marchowski, D., Jankowiak, Ł., Ławicki, Ł., Wysocki, D. & Chylarecki P. (2020)b. Fishery bycatch is among the most importantthreats to the European population of Greater Scaup Aythya marila. BirdLife International. 30:176-193

[iv] Náttúrufræðistofnun Íslands. Sótt 25. febrúar 2024 á:https://www.ni.is/is/duggond-aythya-marila

[v] National parks and wildlife service 2024. Sótt 26. febrúar 2024 á: https://www.npws.ie/news/amendments-open-seasons-order-wild-birds

WordPress Image Lightbox Plugin