Blóðögður en ekki flær í Botnsvatni

Seinnihluta sumars varð þess vart hér á Húsavík að krakkar sem buslað höfðu í Botnsvatni í veðurblíðunni steyptust út í kláðabólum. Varð þetta til þess að heilbrigðisfulltrúi gaf út tilkynningu og setti upp skilti sem varaði fólk við því að baða sig í Botnsvatni.

sundmannakladi
Útbrot eftir sundmannakláða.

Þessar fregnir urðu til þess að Náttúrustofan fór á stúfana til þess að kanna betur hvað þarna væri á ferðinni. Fljótlega beindust spjótin að svokölluðum „sundmannakláða“ þar sem ekki er vitað til þess að vatnaflær leggist á fólk og valdi fólki þeim óþægindum sem sögur fóru af. Náttúrustofan setti sig í samband við dr. Karl Skírnisson sérfræðing á Keldum sem rannsakað hefur „sundmannakláða“ hér á landi. Í kjölfarið fór starfsmaður Náttúrustofunnar og safnaði sýnum úr Botnsvatni sem síðan voru send suður til greiningar. Nú hefur verið staðfest að í sýnunum fundust sundlirfur fuglablóðagða en þær valda áðurnefndum „sundmannakláða“.

Mynd til hægri sýnir útbrot þau er einkenna sundmannakláða. Ljósmyndina tók Jens Magnússon læknir árið 1997 af fótum barns sem hafði vaðið í tjörninni í Fjölskyldugarðinum í Reykjavík.

Sundlirfur þær sem hér um ræðir (sjá myndir hér að neðan) lifa fullorðnar sem sníkjudýr í andfuglum og berast með þeim í vötn og tjarnir. Aðsetursstaður fullorðnu ormanna er annað hvort  slímhimna nefholsins (þar lifa svonefndar nasaögður) eða inni í bláæðum við aftasta hluta meltingarvegar (iðrablóðögður). Að minnsta kosti fimm tegundir eru þekktar í andfuglum hér á landi, fjórar iðraögður og ein nasaagða. Allar tilheyra þær ættkvíslinni Trichobilharzia (Karl Skírnisson, óbirtar athuganir). Berist egg þessara orma út í vatn skríða úr þeim lirfur sem bora sig inn í vatnabobba (Radix peregra) og í þeim verður til fjöldinn allur af sundlirfum með kynlausri æxlun. Ekki fer að bera á þessum lirfum í vatninu fyrr en seinni part sumars. Í leit sinni að sundfitum andfugla til að bora sig inn í gegn um og komast þannig inn í líkamann til að ljúka lífsferlinum, mistaka lirfurnar sig auðveldlega á mannshúð og fuglshúð. Hver kláðabóla á mannshúð táknar að líkaminn er að brjóta lirfuna niður. Þar sem nasaagðan sækir í að ferðast eftir taugum er fólki eindregið ráðið frá því að fara ofan í vatn þar sem vitað er um sundlirfur því tilraunir hafa sýnt að sumar lirfur nasaagðanna geta lifað dögum saman í spendýrum og sækja á meðan í taugavef þeirra sem þær éta sér til viðurværis.  Iðrablóðögður geta einnig lifað dögum saman í spendýrum en skaði af þeirra völdum er yfirleitt álitinn vera minni en hjá nasaögðum. Ekki er vitað hvort lirfurnar í Botnsvatni eru nasa- eða iðraögður því útlitsmunur kemur ekki fram fyrr en á fullorðinsstigi sníkjudýranna. Til þess að forðast óþægindi og áhættu er rétt að ítreka við fólk að busla hvorki né synda í Botnsvatni seinnipart sumars og fram á haust!

Vegna þeirra rannsókna sem nú standa yfir á „sundmannakláða“ óskar Náttúrustofan eftir upplýsingum frá þeim sem orðið hafa fyrir barðinu á honum eftir bað í Botnsvatni. Hægt er að senda tölvupóst á nna@nna.is eða hringja í síma 464 0450.

Tricho Botnsvatn NNA blönd s_kingm nr. 2 b
Sundlirfur nasablóðögðunar Trichobilharzia sem fundust í sýnum frá Botnsvatni. Sjá má á myndunum augnapar (svartir deplar) framan við magasogskál, framhlutinn er meira eða minna fullur af kirtlum sen seyta próteinkljúfandi efnum sem rjúfa göt á húðina þannig að framhlutinn nær að smjúga inn. Afturhluti lirfunnar er hreyfitækið, langur stilkur með klofinni blöðku hreyfir lirfuna úr stað, stilknum er kastað þegar lirfan hefur fundið sér húð til að smjúga í gegn um. Stærð lirfanna er rúmur millimeter. Mynd: Karl Skírnisson.
Tricho Botnsvatn NNA blönd s_kingm nr. 2 c
Stækkuð mynd af framhluta Trichobilharzia lirfu úr Botnsvatni. Hér sjást augndeplarnir mjög vel. Mynd: Karl Skírnisson.

 

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin