Bjargfuglar í vanda!

Náttúrustofa Norðausturlands hefur með reglubundnum hætti fylgst með (vaktað) ástandi sjófuglastofna á Norðausturlandi undanfarin ár. Vöktunin felur m.a. í sér árlegar talningar á skilgreindum talningarsniðum í Skoruvíkurbjargi á Langanesi og í Grímsey. Sniðin voru upphaflega sett út og talin að frumkvæði Arnþórs Garðarssonar, prófessors við Líffræðistofnun Háskóla Íslands, sem hóf staðlaðar talningar í Skoruvíkurbjargi árið 1986 en árið 2009 í Grímsey. Sniðin eru talin á sama tíma, með sömu aðferðum, ár hvert. Náttúrustofan hefur nú tekið saman niðurstöður talninga á þremur tegundum bjargfugla í þessum tveimur byggðum sumarið 2014 (1. mynd). Benda þær til þess að tegundunum sé nokkur vandi búinn um þessar mundir, auk þess sem eldri gögn sýna fram á mjög óheillavænlega þróun (2. mynd).

Í Skoruvíkurbjargi benda niðurstöður vöktunarrannsókna sumarið 2014 til 45% fækkunar stuttnefju frá síðasta ári (1. mynd). Til lengri tíma litið sýna niðurstöður talninga þar fram á langvarandi fækkun tegundarinnar, þó svo að lítilsháttar uppsveiflu hafi mátt greina frá 2010 til 2013. Er því svo komið að stuttnefju hefur nú fækkað um 82% í Skoruvíkurbjargi á tímabilinu frá 1986 fram til ársins 2014! Haldist þessi þróun áfram má leiða líkur að því að stuttnefjur hverfi úr Skoruvíkurbjargi eftir u.þ.b. fimm ár. Í Grímsey fækkaði stuttnefjum einnig nokkuð milli 2013 og 2014 (13%), eftir fjölgun frá því árið 2009. Nokkuð gott heildarsamræmi virðist því vera í stofnþróun stuttnefju í Skoruvíkurbjargi og í Grímsey milli ára og  allt sem bendir til þess að tegundin eigi almennt undir högg að sækja um þessar mundir.

Líkt og hjá stuttnefju mátti greina uppsveiflu hjá langvíu frá 2011-2013, bæði í Skoruvíkurbjargi og Grímsey. Niðurstöður talninga sumarið 2014 sýna hins vegar fram á verulega snarpa fækkun (29% og 21%) á báðum stöðum. Fjöldi langvía í Skoruvíkurbjargi hefur sveiflast nokkuð mikið frá árinu 1986, þar sem þeim fjölgaði talsvert á tímabilinu fram til 2000 en fækkaði svo mjög skart til fyrra horfs á milli 2000 og 2005. Síðan þá hefur fjöldinn staðið nokkurn veginn í stað eða fækkað lítillega þar til á nýliðnu sumri.

Ritu hefur, líkt og stuttnefju fækkað mikið í Skoruvíkurbjargi frá því 1986. Fjöldi ritu þar á nýliðnu sumri var sá lægsti frá upphafi talninga og reyndist vera rétt tæp 16% af því þegar mest var árið 1994. Minniháttar sveiflur hafa verið í Grímsey síðan 2009 og virðist ritu fjölga þar frekar en hitt. Frá því reglubundnar talningar hófust þar hafa ekki verið fleiri ritur á talningarsniðum í Grímsey en á nýliðnu sumri.

 

1. mynd. Vísitala á fjölda svartfugla og fjölda rituhreiðra á talningarsniðum í Skoruvíkurbjargi (þríhyrningar), 1986-2014, og Grímsey (hringir), 2009-2014. Gögn frá 1986 - 2005 í Skoruvíkurbjargi og úr Grímsey 2009 eru birt með leyfi Arnþórs Garðarssonar.
1. mynd. Vísitala á fjölda svartfugla og fjölda rituhreiðra á talningarsniðum í Skoruvíkurbjargi (þríhyrningar), 1986-2014, og Grímsey (hringir), 2009-2014. Gögn frá 1986 – 2005 í Skoruvíkurbjargi og úr Grímsey 2009 eru birt með leyfi Arnþórs Garðarssonar.
2. mynd. Dæmi um fækkun sjófugla á einu talningarsniði (nr. 22) í Skoruvíkurbjargi. Ljósmynd vinstra megin tekin af Arnþóri Garðarssyni sumarið 1999 og myndin hægra megin tekin af Aðalsteini Ö. Snæþórssyni 30. júní 2014. Á þessu tiltekna sniði hefur svartfuglum fækkað um rúm 70% og ritu um 81% frá árinu 1994.
2. mynd. Dæmi um fækkun sjófugla á einu talningarsniði (nr. 22) í Skoruvíkurbjargi. Ljósmynd vinstra megin tekin af Arnþóri Garðarssyni sumarið 1999 og myndin hægra megin tekin af Aðalsteini Ö. Snæþórssyni 30. júní 2014. Á þessu tiltekna sniði hefur svartfuglum fækkað um tæpt 71% og ritu um 81% frá árinu 1994.

 


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin