Bakkasvala
Þann 6. maí fundu þeir Aðalsteinn Örn Snæþórsson, Már Höskuldsson og Yann Kolbeinsson bakkasvölu Riparia riparia við Lauga í Reykjadal. Um er að ræða fyrsta fund þessarar tegundar í Þingeyjarsýslum og í raun norðan heiða. Tegundin er sjaldséður vorgestur á sunnanverðu landinu og höfðu 30 einstaklingar verið skráðir til loka árs 2006. Þetta er önnur bakkasvalan sem finnst hérlendis í vor, sú fyrsta sást á Heimaey í síðari hluta mars mánaðar.
Bakkasvölur eru fremur auðgreindar. Jafnbrúnar að lit að ofan og hvítar að neðan með brúnu belti þvert yfir bringu. Stélið er stutt og lítillega klofið. Landsvölur Hirundo rustica eru tíðir gestir hér og þekkjast m.a. á löngu, klofnu stéli og eru þær svartar að ofan. Bæjasvalan Delichon urbicum er ekki ósvipuð bakkasvölu að stærð en hún er alhvít að neðan og svört að ofan með hvítan gump. Báðar síðarnefndu tegundirnar hafa nokkrum sinnum verpt hér á landi.
