Fuglaáhugamenn víðsvegar um landið hafa þá venju að setja upp sjóngler sín og líta eftir fuglum milli jóla og nýjárs ár hvert. Um er að ræða vetrarfuglatalningu Náttúrufræðistofnunar Íslands sem stundum er kölluð jólatalningin. Talið er á fyrirfram skilgreindum svæðum, flestum við stöndina, og hafa sum þessara svæða verið talin í áratugi. Auk þess að vera mjög hressandi eftir steikar- og smákökuát jólanna gefa talningar sem þessar mikilvægar upplýsingar um þróun og stöðu fuglastofna hér við land á þessum árstíma. Tímasetning talningarinnar er ákveðin af Náttúrufræðistofnun og er reynt að telja um allt land sama daginn. Að þessu sinni var talningardagurinn færður fram yfir áramót vegna þess hve lítið var um frídaga í kringum þessi jól. Talið í fyrradag, sunnudaginn 9. janúar.
Vegna mikils fannfergis voru talningarsvæði á Tjörnesi talin ófær fuglaskoðurum og var talningu á þeim því frestað um óákveðinn tíma. Hinsvegar komust menn eitthvað um í bænum og í næsta nágrenni hans og þar var því talið á tveimur talningarsvæðum.
Samkvæmt upplýsingum frá Gauki Hjartarsyni talningarmanni á fjöldi fugla og tegundaauðgi á Húsavíkursvæðinu (232B) sér varla hliðstæðu í tæplega 50 ára sögu jólatalninga á Húsavík. Það telur Gaukur helgast að hluta til af því að á laugardag var norðan skítviðri, en þá leita fuglar víða af á Skjálfanda skjóls í höfninni á Húsavík. Alls sáust 30 tegundir. Engir mjög sjaldgæfir fuglar sáust þó, en meðal sjaldgæfari fugla voru 12 silkitoppur, 6 gráþrestir, svartþröstur, 3 haftyrðlar, álka, 2 stuttnefjur, 3 lómar, himbrimi, 6 rjúpur ofl.
Heldur var minna um að vera á hinu svæðinu sem talið var að þessu sinni en það er við Kaldbakstjarnir. Þar sáust m.a. 2 gráhegrar og hrossagaukur.
Nánari fréttir munu verða sagðar af vetrarfuglatalningum þegar færð skánar…..