Álftarsaga

Þann 28. ágúst s.l. fundu starfsmenn Náttúrustofunnar dauða álft á þjóðvegi 1, ekki fjarri Grímsstöðum á Fjöllum. Álftin var nýdauð, sennilega verið ekið á hana fyrr um daginn. Hún var merkt (litmerki 42I) og voru merkin tekin af henni og grennslast fyrir um upprunann.

Í ljós kom að álftin 42I er ættuð frá Akureyri. Faðir hennar er álftarsteggur sem fannst frosinn í Eyjafjarðará fyrir einhverjum árum síðan. Eftir aðhlynningu var honum komið fyrir á andapollinum við sundlaugina á Akureyri. Nokkru síðar var komið með kvenfugl handa honum og varð það upphafið að viðburðaríkri sögu álfta á andapollinum. Þær byrjuðu að verpa strax næsta vor en ungarnir sem úr því varpi komu yfirgáfu pollinn ekki að hausti heldur héldu þar til áfram. Þegar ungar úr öðru varpi litu dagsins ljós þá tóku „gömlu“ ungarnir sig til og drápu þá. Þeir voru því teknir og fluttir á Skjálfandafljót í Bárðardal. Álftirnar héldu áfram að auka kyn sitt en steggurinn fór að gerast skapillur og átti það til að ráðast að börnum og gömlum konum sem af góðmennsku sinni komu með brauð handa öndunum. Eftir að steggurinn var búinn að berja barn þannig að á því sá var hann dæmdur í ævilanga útlegð ásamt allri fjölskyldunni. Þau voru tekin vængjum og fótum þann 16. okt. 2003, merkt og sleppt við Geirastaði í Mývatnssveit. Álftin 42I var ungi í þessari fjölskyldu.

Mánuði eftir að fjölskyldan var flutt í Mývatnssveit fannst álftin 42I í Færeyjum. Hún var þá talin veik og höfð í haldi um veturinn. Hún hélt svo til í Færeyjum til haustsins 2004 en hefur þá væntanlega haldið til vetrarstöðva. Næst sást hún um miðjan mars 2005 á Írlandi og var þá hugsanlega á leið til Íslands af vetrarstöðvum. Þann 25. júní 2006 sást hún svo á Mývatni en það er það síðasta sem vitað er um hana þar til hún lenti í ofangreindu umferðaróhappi.

Merkingar fugla geta gefið mikilvægar vísbendingar um ferðir þeirra. Náttúrustofan vill því hvetja alla sem sjá eða finna merkta fugla að láta vita af þeim. Náttúrustofan tekur við merkjum og upplýsingum um þau og kemur áfram til Náttúrufræðistofnunar Íslands sem er umsjónaraðili fuglamerkinga á Íslandi.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin