Náttúrustofan hefur á þessu ári unnið töluvert að rannsóknum og ráðgjöf í tengslum við fyrirhugaða stóriðjuuppbyggingu við Húsavík. Rannsóknirnar snúast að mestu leyti um að gera grein fyrir fuglalífi og hugsanlegum áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda. Þannig hefur Náttúrustofan rannsakað fuglalíf í Bakka, á fyrirhuguðum orkuvinnslusvæðum í Kröflu, Gjástykki og á Þeistareykjum og á raflínuleiðum frá fyrirhuguðum virkjunum að Bakka. Fuglaathuganir fóru að mestu fram í júní unnið er að úrvinnslu og skýrslugerð í haust og vetur.
Auk rannsókna hefur Náttúrustofan veitt ráðgjöf við gerð svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslu, sem unnið er fyrir Norðurþing, Aðaldælahrepp, Þingeyjarsveit og Skútustaðahrepp. Tillaga að svæðisskipulaginu hefur nú verið auglýst og er til sýnis á skrifstofum sveitarfélaganna fjögurra og hjá Skipulagsstofnun fram til 16. október nk. Einnig er tillagan aðgengileg á heimasíðunni http://teikna.is/
Tilkoma Náttúrustofunnar hefur gert það að verkum að sérfræðivinna tengd náttúrufarsrannsóknum og náttúruvernd í Þingeyjarsýslum hefur í auknum mæli færst heim í hérað. Verkefni Náttúrustofunnar eru þannig góður vitnisburður um þýðingu þess fyrir landsbyggðina að hafa slíka starfsemi. Með áframhaldandi vexti Náttúrustofunnar mun hlutur heimamanna í rannsóknum og ráðgjöf tengdum náttúrufarsrannsóknum og náttúruvernd á Norðausturlandi vonandi koma til með að aukast enn frekar í náinni framtíð.






