Að beiðni Þingeyjarsveitar tók Náttúrustofan að sér kortlagningu á útbreiðslu ágengra plöntutegunda í sveitarfélaginu en um er að ræða tegundirnar bjarnarkló, skógarkerfil, spánarkerfil og alaskalúpínu. Verkefnið verður unnið á tveimur árum.
Undanfarna daga hefur Náttúrustofan verið að störfum í Aðaldal, Laxárdal, Kaldakinn og Reykjadal. Næsta sumar verður útbreiðsla tegundanna kortlögð í Bárðardal, Ljósavatnsskarði og Fnjóskadal.
Við kortlagningu á lúpínu er stuðst við útbreiðslukort Náttúrufræðistofnunar Íslands af lúpínu frá 2017 en einnig er litið eftir nýjum fundarstöðum og þeir hnitaðir og skráðir. Fundarstaðir skógarkerfils, spánarkerfils og bjarnarklóar eru hnitsettir og/eða teiknaðir inn á kort. Við kortlagningu á Laugum í Reykjadal og meðfram Reykjadalsá að Vestmannsvatni var m.a. notast við dróna og ljósmyndir teknar með honum. Meðfylgjandi myndir voru teknar á svæðinu síðustu daga.


















