Afrakstur sjófuglarannsókna birtur í þemahefti Marine Ecology Progress Series

Náttúrustofa Norðausturlands hefur unnið að rannsóknum á sjófuglum í tengslum við hið alþjóðlega rannsóknaverkefni SEATRACK frá árinu 2014. Þetta samstarfsverkefni miðar að því að kortleggja dreifingu og ferðir sjófugla utan varptímans frá fuglabyggðum átta landa umhverfis norðanvert Atlantshaf, nánar tiltekið frá heimskautaeyjum Kanada í vestri austur til Novaya Zemlya eyju í Rússlandi. Að þessu mikla verkefni koma yfir 60 rannsóknaraðilar frá 10 löndum og fram að síðasta ári höfðu safnast rúmlega 5.400 ferðir ellefu sjófuglategunda frá fyrrnefndum svæðum, með notkun dægurrita (e. geolocator). Aðkoma Náttúrustofunnar að þessu verkefni hefur snúið að rannsóknum á ritum, stuttnefjum, langvíum og fýlum á norðanverðu landinu; á Látrabjargi, í Grímsey, við Skjálfanda og á Langanesi.

Marine Ecology Progress Series er ritrýnt vísindarit sem kemur út allt að þrisvar á ári en í því má reglulega finna hefti sem einblína á ákveðin þemu. Í nýútkomnu hefti tímaritsins fengu afurðir SEATRACK verkefnisins að njóta sín að fullu í eigin þema, um dreifingu og ferðir sjófugla utan varptíma í Norður-Atlantshafi. Eru þar birtar 12 vísindagreinar sem byggja alfarið á gögnum þessa verkefnis. Af þeim eru fimm sem styðjast við gögn um ferðir íslenskra sjófugla sem Náttúrustofan hefur safnað til dagsins í dag;

1) Six pelagic seabird species of the North Atlantic engage in a fly-and-forage strategy during their migratory movements, eftir Françoise Amélineau o.fl. Ferðir sex sjófuglategunda, m.a. ritu, stuttnefju, langvíu og fýls, samanstanda að meðaltali af 3-4 farlotum með 2-3 aðgreindum viðkomusvæðum utan varptímans. Að jafnaði dvöldu sjófuglar að vetri á lægri breiddargráðum en varpbyggðirnar þeirra og fylgdu sérstökum farleiðum fremur en að dreifast tilviljanakennt frá varpsvæðunum. Hér er sýnt fram á mikilvægi svæða sem sjófuglar fara um til og frá vetrarstöðvum, ekki eingöngu sem hluti flugleiðar heldur sem mögulega mikilvægur viðkomustaður til að fita sig upp á farinu.

Rita Rissa tridactyla við Skoruvíkurbjarg á Langanesi – NNA/Yann Kolbeinsson

2) Light-level geolocators reveal spatial variations in interactions between northern fulmars and fisheries, eftir Benjamin Dupuis o.fl. Þessi rannsókn bendir á þá möguleika sem notkun dægurrita getur gefið af sér, með tiltölulega litlum kostnaði og á útbreiddu svæði. Hér var það sýnt með því að skoða samspil sjófugla (í þessu tilfelli fýla) og fiskveiða. Gögnin sýndu fram á að fýlar koma að fiskveiðiskipum að næturlagi utan varptíma. Líkur á að hitta á skip voru mjög breytilegar milli einstaklinga en voru meiri á vetrarsvæðum þar sem mjög miklar fiskveiðar eiga sér stað. Í þeim tilfellum eyddu fýlar að jafnaði meiri tíma við fæðuleit en hvíld.

Fýll Fulmarus glacialis í Grímsey – NNA/Yann Kolbeinsson

3) Strong migratory connectivity across meta-populations of sympatric North Atlantic seabirds, eftir Benjamin Merkel o.fl. Hér voru rannsakaðar tvær samsvæða tegundir (tegundir sem verpa á sama svæði), stuttnefja og langvía. Einstaklingar frá mismunandi varpstofnum beggja tegunda safnast á tiltekin svæði og reyndust einungis nýta sér brot af mögulegri úbreiðslu hverrar tegundar fyrir sig. Auk þess var svæðisnýting misjöfn milli árstíða, sem undirstrikar breytilegar takmarkanir sem báðar tegundir standa fyrir á mismunandi tímum ársins. Rannsóknin sýnir fram á mikilvægi þess að taka tillit til breytileika sem orðið getur á farháttum og svæðanotkun sjófugla þegar kemur að því að meta viðkvæmni þeirra gagnvart t.d. loftslagsbreytingum.

Stök stuttnefja Uria lomvia virðir fyrir sér langvíubæli Uria aalge í Grenivíkurbjargi í Grímsey – NNA/Yann Kolbeinsson

4) Inter-annual variation in winter distribution affects individual seabird contamination with mercury, eftir Céline Albert o.fl. Kvikasilfur var mælt í fjöðrum en fuglar eru þeim eiginleikum gæddir að þeir þveita (e. excrete) kvikasilfri úr fæðu sinni út í fjaðrir meðan þær vaxa. Með því að bera saman magn kvikasilfurs í fjöðrum sem vaxa yfir háveturinn og upplýsingar um staðsetningu fuglanna (sem aflað er með dægurritum fuglanna) á þeim tíma má m.a. kortleggja magn kvikasilfurs milli hafsvæða, tegunda, ára, og fæðuhátta. Niðurstöðurnar sýndu m.a. að mismunandi var milli tegunda hversu oft mengun kvikasilfurs mældist yfir svokölluðum eitrunarþröskuldi (e. toxicity threshold) en yfir því viðmiði er talið að kvikasilfur fari að hafa neikvæð áhrif á fuglana. Oftast mældist kvikasilfur yfir þessum mörkum hjá stuttnefjum, sem hafa lengi átt undir högg að sækja hér á landi (fækkun). Stuttnefjur voru talsvert tryggar vetrarstöðvum sínum milli ára og halda þær íslensku sig að mestu leyti við vestanvert Grænland. Almennt var magn kvikasilfurs svipað milli ára í þeim einstaklingum sem héldu sig á sömu slóðum en breytilegra var það hjá þeim einstaklingum sem færðu sig til á milli ára. Þegar nánar var skoðað hjá þeim síðarnefndu kom í ljós að magn kvikasilfurs jókst hjá þeim sem færðu sig til norðvesturs milli ára en minna hjá þeim sem færðu sig til austurs. Rannsóknin staðfesti þannig stigul í magni kvikasilfurs í N-Atlantshafi frá austri til vesturs.

Stuttnefja við Látrabjarg – NNA/Yann Kolbeinsson

5) Year-round distribution of Northeast Atlantic seabird populations: applications for population management and marine spatial planning, eftir Per Fauchald o.fl. Metin var meðalmánaðardreifing sex úthafstegunda (þ.á.m. ritu, stuttnefju, langvíu og fýls) sem verpa í NA-Atlantshafi. Gagnasettið byggir á ferðum 2.356 fullorðinna sjófugla frá tímabilinu 2006-2019, sem fengust með notkun dægurrita, gögnum sem lýsa umhverfisaðstæðum og gögnum um stærðir sjófuglastofna. Útkoman er gagnasett sem samanstendur af 4.692 kortalögum þar sem hvert lag spáir fyrir um þéttleika fugla ákveðinnar tegundar, varpbyggðar og mánaðar um allt N-Atlantshaf. Gögnin lýsa því árlegri dreifingu u.þ.b. 23,5 milljón fullorðinna úthafssjófugla, eða 87% af stofnstærð fullorðinna fugla þeirra tegunda sem skoðaðar voru í NA-Atlantshafi. Sýnt er hvernig svona gagnasett getur nýst við rannsóknir á stofn- eða umhverfisstjórnun, þ.m.t. við greiningu á tegundabundnum vetrarstöðvum og til að greina hvaða stofnar njóta áhrifa af friðlýstum svæðum á sjó.

Langvíuungi fylgir sínu foreldri í utanverðum Eyjafirði – NNA/Yann Kolbeinsson

Óhætt er að segja að ómetanlegt gagnasafn hefur fengist með þessum yfirstandandi rannsóknum, sem munu halda áfram sumarið 2022 og næstu ár þar á eftir. Þessar rannsóknir eru sömuleiðis orðnar að mikilvægum hlekki í sjófuglarannsóknum Náttúrustofunnar þar sem talið er árlega af sniðum í sjófuglabyggðum umhverfis landið sem og fylgst með varpárangri nokkurra tegunda á völdum stöðum, í samstarfi við Náttúrustofur Vestfjarða, Vesturlands, Suðvesturlands og Suðurlands og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi. Ofangreindar niðurstöður eru einungis nýjasta viðbót við áður birtar niðurstöður fyrri ára sem sjá má undir flokknum „Útgefið efni“ á heimasíðu Náttúrustofunnar.

Þorkell Lindberg Þórarinsson og Aðalsteinn Örn Snæþórsson baðaðir geislum miðnætursólar við stuttnefjurannsóknir í Stóra-Bratta í Grímsey. Fylgst hefur verið með ferðum þessarar stuttnefju (nr. B09250) árlega frá 2013 til dagsins í dag, að undanskildum vetrinum 2014-2015 – NNA/Yann Kolbeinsson
WordPress Image Lightbox Plugin