Föstudaginn 19. maí s.l. voru flugnagildrur Náttúrustofunnar settar upp fyrir sumarið. Flugnagildrurnar, fimm talsins, eru staðsettar við Miklavatn og Sílalækjarvatn í Aðaldal og Víkingavatn, Skjálftavatn og Ástjörn í Kelduhverfi.
Gildrurnar eru jafnan settar upp í kringum 20. maí ár hvert og tæmdar mánaðarlega yfir sumarið. Um er að ræða svokallaðar rúðugildrur, gerðar úr plexigleri (sjá mynd). Fljúgandi skordýr fljúga á glerið og falla ofan í kassann sem fylltur er frostlegi og vatni, þar varðveitast dýrin þar til gildran er tæmd.

Gildrurnar eru fyrst og fremst ætlaðar til að fylgjast með stofnsveiflum rykmýs í vötnunum en fjöldi þeirra gefur vísbendingar um ástand botndýralífs og þar með fæðuframboð fugla og fiska í viðkomandi vatni á hverjum tíma. Náttúrustofan hefur safnað gögnum um stofnsveiflur rykmýs í fyrrnefndum vötnum frá árinu 2006 ef frá eru talin Víkingavatn og Ástjörn en gildra var fyrst sett upp á Víkingavatni sumarið 2007 og á Ástjörn sumarið 2011.
Vöktunarrannsóknir sem þessar eru í eðli sínu langhlaup, því þeim er ætlað að meta ástand vistkerfa og einstaka stofna lífvera til lengri tíma. Með hverju árinu sem líður verða gögnin sem safnað er verðmætari og auka um leið skilning okkar á ástandi umhverfisins.
Nú er tólfta sumar flugnavöktunarinnar að hefjast og því ekki úr vegi að skoða síðustu 11 árin myndrænt. Veiðinni er skipt upp í tvö tímabil, fyrra tímabilið er frá því að gildran er sett upp og fram til 20. júlí (A) og það seinna frá 20. júlí og þar til gildran er tekin niður í kringum 20. ágúst (B).
Til fróðleiks má geta þess að Náttúrustofan hefur fylgst með ungaframleiðslu á vötnunum frá árinu 2004. Þar er því til talsvert af gögnum sem ætlunin er að bera saman við rykmýsgögn í framtíðinni. Ungar eru taldir eftir miðjan júlí og er því hægt að bera ungaframleiðsluna saman við fyrra veiðitímabilið (A). Við fyrstu skoðun virðast sveiflur í ungaframleiðslu vatnanna að miklu leyti haldast í hendur við þær stofnsveiflur sem sjást hjá rykmýinu. Enn á eftir að vinna betur úr þeim gögnum, þau verða því ekki birt að sinni.