Í gær, þriðjudaginn 26. júní, barst Náttúrustofunni aðmírálsfiðrildi Vanessa atalanta sem náðst hafði í Vegagerðarhúsinu í Haukamýri á Húsavík. Vorið það tveir vaskir starfsmenn Vegagerðarinnar sem mættu með fiðrildið til að kanna hvaða kynjagripur þetta væri. Fiðrildið er afar skrautlegt og mun stærra en þau fiðrildi sem við Íslendingar eigum að venjast. Aðmírálsfiðrildi berast til Íslands frá Evrópu með heitum sunnanvindum og hefur nokkuð borið á þeim hér á landi undanfarið. Þau hafa m.a. sést á Tjörnesi og í Kelduhverfi auk Húsavíkur.
Um aðmírálsfiðrildi hefur Gísli Már Gíslason, prófessor við Líffræðiskor Háskóla Íslands, skrifað á vísindavef háskólans (http://visindavefur.hi.is/?id=2131). Þar var spurt: „Geta aðmírálsfiðrildin sem berast hingað með heitum vindi lifað af sumarið á íslenskum blómum eða eru þau of auðveld bráð?“ Svar Gísla fer hér á eftir:
„Fullvaxin fiðrildi lifa aðeins á blómasykri og ekki er ósennilegt að aðmírálsfiðrildi (Vanessa atalanta) geti sogið blómasykur úr blómum á Íslandi, sérstaklega stórum blómum í görðum. Náttúrulegt útbreiðslusvæði aðmírálsfiðrilda er í Suður-Evrópu, Norður-Afríku, á Mið-Atlantshafseyjum og í Norður-Ameríku. Aðalútbreiðslusvæði þeirra er í Norður-Afríku og þaðan fara þau í göngum norður til Evrópu. Þau geta tímgast á Bretlandseyjum og myndað sumarkynslóð, en lifa ekki af veturinn. Á Íslandi eru aðmírálsfiðrildi aðeins flækingar, fjölga sér ekki og lifa að sjálfsögðu veturinn ekki af, frekar en annars staðar í N-Evrópu.
Spyrjandi spyr hvort aðmírálsfiðrildin séu of auðveld bráð. Vissulega éta fuglar þau, en engu að síður er aðalástæða þess að þau eru ekki á Íslandi sú að náttúrulegt útbreiðslusvæði þeirra er mun sunnar; þau tímgast ekki hér og því getur ekki myndast varanlegur stofn.“
Aðmírálsfiðrildi eru mun skrautlegri og stærri en þau fiðrildi sem við Íslendingar eigum að venjast. Lengd búksins er á að giska 2-3 cm og vænghafið um 6 cm en nákvæmar mælingar voru ekki gerðar á fiðrildinu.