Aðmírálsfiðrildi Vanessa atalanta (Linnaeus, 1758) er stórt og skrautlegt fiðrildi sem lifir í Evrópu, Asíu og Norður Ameríku. Ólíkt íslensku fiðrildunum sem eru mest á ferli á næturnar fljúga aðmírálsfiðrildin á daginn. Fullorðið fiðrildi lifir á blómasafa en lirfan étur blöð brenninetlunnar. Lirfan myndar púpu seinni part sumar og að hausti skríður svo fullvaxið fiðrildi úr púpunni. Aðmírálsfiðrildi á norðlægum slóðum leggja í langt ferðalag til suðlægari og hlýrri staða til vetrardvala. Á þessum fartíma hrekjast fiðrildin stundum undan veðri og geta þá meðal annars borist til Íslands.
Hingað til lands berast þau sennilega árlega en mikil áraskipti eru að því hve mörg finnast. Líklega hafa austlægar áttir ráðið því að tvö aðmírálsfiðrildi fundust á Húsavík með stuttu millibili. Það fyrra flaug inn í hús á Baughól þann 28. ágúst s.l. og var því safnað. Eintakið er varðveitt á Náttúrustofu Norðausturlands og er myndin hér að ofan af því. Hitt fiðrildið sást í garði í Brúnagerði og náðist af því myndin hér að neðan. Frekari upplýsingar um aðírálsfiðrildi má sjá á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands með því að smella hér.