Að nýta sér meðvind á flugi

Í nýjasta hefti Ecography sem út kom í febrúar síðastliðnum birtist m.a. grein með löngum titli sem fjallaði um hvernig ríkjandi vindáttir móta farleiðir lunda og ritu í fuglabyggðum á Norður-Atlantshafi. Rannsóknin byggir á SEATRACK fugla­merkingargögnum fengnum frá vöktunaraðilum ýmissa landa á norðurhveli þ.á m. frá Náttúrustofu Norðausturlands. Festir voru dægurritar (geolocators) á 794 ritur og 424 lunda úr 18 ólíkum fuglabyggðum víðsvegar við Norður-Atlantshaf. Þessir ritar söfnuðu gögnum um staðsetningu fuglanna út frá birtulengd og tímasetningu sólarupprásar og sólseturs í eitt ár. Að ári, voru fuglarnir handsamaðir aftur og dægurritarnir teknir til að safna úr þeim gögnum.

Rannsóknir hafa áður sýnt að ýmsir farfuglar kjósa farleiðir með hentugum vindáttum fram yfir stystu leið ef vindaðstæður þar eru óhagstæðar. Fuglar eru misháðir hentugum vindaðstæðum eftir lengd flugs, fluglagi (virkt flug eða svifflug), líkamsþyngd fugls og hlutföllum þeirra. Bæði lundar og ritur nota svokallað virkt flug (flapping flight) þar sem fuglarnir þurfa að blaka vængjum til að haldast á flugi. Vængálag (þyngd fugls deilt með flatarmáli vængs) þessara tegunda er hinsvegar mjög ólíkt. Lundar hafa hátt vængálag þar sem þeir, eins og aðrir svarfuglar, nota vængi sína til að knýja sig áfram í kafi. Vængir þeirra eru stuttir og þeir þurfa að blaka þeim ótt og títt til að haldast á flugi. Slíkt flug er mjög orkukræft en ekki eins háð hentugum vindaðstæðum eins og flug fugla með lægra vængálag (eins og t.d. ritan).  

Niðurstöður sýndu að bæði rita og lundi láta hentugar vindáttir ráða miklu um val á farleiðum. Farleiðir þeirra fylgja ríkjandi vindáttum og er langt frá því að vera stysta leið milli vetrarstöðva og varpstöðva. Þar sem ríkjandi vindáttir á Norður-Atlantshafi eru oftast þær sömu óháð árstíðum fylgir þessu að farleiðir liggja ekki á sömu slóðum á leið á varpstöðvar að vori og á leið á vetrarstöðvar að hausti. Í grófum dráttum voru farleiðir beggja tegunda svipaðar og lágu í sveig eða sveigjum í suðvestur að hausti og norðaustur að vori.

Ekki buðu öll svæði upp á hentugar vindáttir bæði til og frá fuglabyggðum. Algengara var að fuglar ferðuðust við hentug vindskilyrði að vori á leið í fuglabyggðir. Það var það sérstaklega áberandi hjá ritunni sem ferðaðist almennt oftar með vindinn í bakið heldur en lundar. Lundar virtust ekki eins staðráðnir í að fylgja hentugum vindaðstæðum á kostað lengri farleiða og var það í samræmi við fyrri niðurstöður um að fuglar með hátt vængálag eru ekki eins háðir hentugum vindaðstæðum. Far þeirra var einnig styttra auk þess sem þeir flugu hægar (6,25 km/klst. á móti 12,37km/klst.) og styttra í einu heldur en ritan (18% á dag í stað 30%). Fyrir þá getur borgað sig að fljúga stystu leið frekar en að fylgja duttlungum vindsins.

Staðsetning fuglabyggða hefur að miklu leyti með legu hagstæðra fæðusvæða og ríkjandi vindátta á þeim svæðum að gera. Sú staðreynd að flestar fuglabyggðir voru staðsettar þannig að ríkjandi vindáttir voru hagstæðastar að vori gæti tengst því að kostnaður við far fyrir varp hefur beinni áhrif á æxlunarárangur heldur en kostaður við far eftir varp. Með því að velja farleiðir út frá hagstæðum vindáttum, lágmarka farfuglar orkunotkun sína á fartíma og stytta tímann sem það tekur þrátt fyrir lengri farleiðir. Slíkt getur haft jákvæð áhrif á lífslíkur og æxlunarárangur. Þó væng- og líkamslögun farfugla þróist almennt í þá átt að lágmarka vængálag til að auðvelda flug, getur þörf fyrir t.d. að knýja sig áfram í kafi með vængjum, vegið hærra og leitt til óhentugra vænglögunar fyrir flug.

Farfuglar geta ekki stjórnað veðri en geta brugðist við mishentugum veðuraðstæðum með því að bíða þær af sér eða velja sér farleið út frá hentugustu veðuraðstæðunum. Hvort sem þekking á farleið erfist eða er lærð, þá leiða minnkaðar lífslíkur og verri æxlunarárangur til þess að valið er gegn óhentugum farleiðum (orkukræfum og tímafrekum) ef aðrar betri eru í boði. Slíkar breytingar geta þó tekið mismikinn tíma. Fyrirsjáanlegar breytingar í veðri og vindum á næstu áratugum gætu orðið svo hraðar að sveigjanleiki í vali á farleiðum (fuglar sem læra eða endurmeta val sitt á farleiðum eftir reynslu fyrri ára) fremur en hröð þróun, er vænlegri leið til að fyrirbyggja stofnhrun ýmissa fartegunda.

WordPress Image Lightbox Plugin