Dverggoði á Lónum

Þann 4. des s.l. sást lítill fugl á Lónum í Kelduhverfi. Greinilegt var á vaxtarlagi að um goða var að ræða en vegna smæðar og atferlis var talið afar ólíklegt að þar væri flórgoði á ferð. Tveim dögum síðar sást fuglinn aftur og þá við betri skilyrði, styttra færi og meiri birtu. Var hann þá greindur sem dverggoði (Tachybaptus ruficollis). Aðeins einu sinni áður hefur þessi tegund sést hérlendis svo vitað sé. Það var á Baulutjörn á Mýrum í A-Skaftafellssýslu en þar var dverggoði frá 17. sept. til 4. okt. árið 2004.
Dverggoði hefur víða útbreiðslu en hann er varpfugl í mið og suður Evrópu, Afríku og í sunnanverðri Asíu. Næst okkur er hann varpfugl á Bretlandseyjum en fáein pör verpa líka í Noregi. Dverggoði er ein af 19 núlifandi goðategundum heimsins en fimm tegundir eru varpfuglar í Evrópu. Aðeins ein goðategund, flórgoði, verpir á Íslandi en fjórar aðrar hafa sést hér á landi; dverggoði, stúfgoði, toppgoði og sefgoði.

Dverggoðinn er mun minni en flórgoðinn en greinist að öðru leiti frá honum í vetrarbúning á ljósbrúnum framháls og síðum en þessi svæði eru hvít á flórgoða. Báðar tegundir eru hins vegar dökkar á baki og kolli. Þá er neðri hluti nefsins á dverggoðanum gulur. Flórgoðar eru sjaldséðir hér á svæðinu að vetrarlagi en þá er helst að finna á Mývatni. Dverggoðinn var enn á Lónunum síðastliðinn sunnudag (3. jan.) og því ekki ólíklegt að hann hyggi á vetursetu hér. Meðfylgjandi mynd tók Már Höskuldsson af dverggoðanum þann 7. des 2008.

dverggodi

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin