Óvenjumikið af sjaldgæfum varpfuglum

Flóastelkur (Tringa glareola)

Þann 22. júní tilkynnti Egill Freysteinsson um flóastelk sem hann hafði séð bregða fyrir á votlendissvæði í Mývatnssveit. Næstu daga á eftir voru starfsmenn Náttúrustofunnar að störfum við flórgoðarannsóknir á svipuðum slóðum en bjuggust engan veginn við að rekast á tvo flóastelka með fjóra litla unga!

Flóastelkar sáust oft við Mývatn á árunum 1959-1982. Varp var þá staðfest tvisvar sinnum (1981 og 1982) en einnig lék sterkur grunur um varp árin 1966, 1976 og 1979. Aðeins þrisvar hafa flóastelkar sést þarna eftir 1982, stakur fugl í júní 1989 og í maí 1996 og 2000 (allir sáust aðeins í einn dag). Flóastelkar hafa ekki fundist í varpi utan Mývatnssveitar hérlendis. Varpheimkynni tegundarinnar eru að finna í Skotlandi, austur um norðanverða Evrópu til Rússlands. Vetrarstöðvar eru m.a. í Afríku.

floastelkur
Flóastelkur passar upp á ungana sína fjóra.

Fjallkjói (Stercorarius longicaudus)

Eitt par reyndi enn og aftur við varp á hefðbundnum varpstað í suðursýslunni. Varp var fyrst staðfest þar sumarið 2003 en fuglar höfðu sést á sömu slóðum mörg ár á undan, og flest ár á eftir. Sumarið 2008 komst upp einn ungi. Að þessu sinni lá parið á tveimur eggjum í júní en ekki sást til fuglanna í nýlegri athugun.

Þetta er eini varpstaður þessarar tegundar hérlendis sem annars sést hér oft bæði á landi og sjó, aðallega þó á fartímum vor og haust. Varpútbreiðslan er hánorræn en næst okkur verpa fjallkjóar á Grænlandi og upp til fjalla í Skandinavíu. Vetrarstöðvar eru m.a. í sunnanverðu Atlantshafi.

fjallkjoi

Landsvala (Hirundo rustica)

Fyrr í sumar birtist hér frétt um landsvölupar í Mývatnssveit. Varpið gekk vel hjá parinu, sem naut reyndar aðstoðar þriðja fuglsins! Fimm ungar urðu fleygir og var öll fjölskyldan enn á varpstað þann 22. júlí.

Eins og hefur áður komið fram er um að ræða fyrsta varptilvik landsvölu norðan heiða og því einkar ánægjulegt að vel hafi tekist til. Tegundin er algeng um allt norðurhvel jarðar og hafa evrópskir varpfuglar vetursetu í sunnanverðri Afríku.

landsvoluungar
Tveir hungraðir landsvöluungar betla mat…
landsvoluungar1
..og þeim verður að ósk sinni

 

 

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin