Dagana 9.-12. júní stóð Náttúrustofan fyrir árlegri rannsóknaferð Samtaka náttúrustofa (SNS). Er þetta þriðja árið í röð sem slík ferð er farin. Markmið með þessum ferðum er að afla og miðla þekkingu um náttúrufar, samræma aðferðarfræði og styrkja samstarf. Sumarið 2007 var gerð úttekt á náttúrufari í Geirþjófsfirði og sumarið 2008 var samskonar úttekt gerð í Héðinsfirði. Að þessu sinni varð hins vegar Austursandur í Öxarfirði fyrir valinu, þar sem úttekt var gerð á fugla- og vatnalífi. Sjó- og vatnafuglar voru kortlagðir, þéttleikamælingar gerðar á mófuglum og fuglar merktir. Sýni voru tekin úr tjörnum og gróðurfar við þær skráð.

Fjölbreytt votlendi einkennir Öxarfjörð og er hann alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði og á lista Bird Life International yfir slík svæði. Öxarfjörður er sérstaklega mikilvægur fyrir grágæs, álft, flórgoða og skúm og á Austursandi er eina skúmsvarpið á Norðurlandi. Í Austursandi er þéttleiki lóma einnig mikill þar sem hann verpir víða við litlar tjarnir og læki sem eru á svæðinu.
Hópurinn, sem samanstóð af 21 manni, gisti í Lundi í Öxarfirði og var veður með besta móti alla dagana. Auk starfsfólks náttúrustofanna tóku tveir sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands og einn frá Veiðimálastofnun þátt í rannsóknaleiðangrinum. Einnig tóku þátt 7 nemendur í náttúru- og umhverfisfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands undir stjórn Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur prófessors.