Þann 3. júní síðastliðinn fundu starfsmenn Náttúrustofunnar grastítu Tryngites subruficollis skammt sunnan við Ásmundarstaði á Melrakkasléttu. Fuglinn sást með tveimur sandlóum og einni sanderlu.
Grastíta er amerískur vaðfugl sem verpir í Norður-Kanada og Alaska og hefur vetursetu í Suður-Ameríku. Tegundin er tíður haustflækingur í Vestur-Evrópu en fremur sjaldséð hérlendis. Þetta er að öllum líkindum 16. grastítan sem sést hérlendis og jafnframt sú fyrsta utan SV-lands. Aðeins einu sinni áður hefur tegundin sést hér að vorlagi.