Villtur rauðbrystingur

Náttúrustofa Norðausturlands hefur verið að fylgjast með farfuglum í nágrenni Bakka vegna fyrirhugaðrar stóriðju þar. Ein af þeim tegundum sem fer um svæðið í miklum mæli er rauðbrystingur (Calidris canutus) en þegar mest var voru yfir 5000 rauðbrystingar í fjörum frá Laugardal að Lynghöfða. Þeir rauðbrystingar sem fara um Ísland vor og haust eru af undirtegundinni islandica. Þeir verpa á Grænlandi og heimskautaeyjum Kanada en á veturna eru þeir við vesturströnd Evrópu frá Hollandi til Frakklands ásamt Bretlandseyjum.

Margir rauðbrystingar hafa verið litmerktir undanfarin ár og hafa hollendingar verið duglegir við þá iðju. Þá eru fuglarnir veiddir í net og á fætur þeirra settir lithringir. Enginn fugl fær samskonar lithringi og því er hægt að þekkja einstaklingana með því að skoða röð lithringja á hvorum fæti. Náttúrustofan athugaði með litmerkta rauðbrystinga við Höfðagerðissand 22. og 23. maí og fundust alls átta merktir þessa daga af um 2000 rauðbrystingum sem voru á svæðinu.

raudbrystingur

Þessir fuglar höfðu allir verið merktir á vesturströnd Evrópu nema einn. Hann hafði verið merktur í Banc d‘Arguin í Máritaníu 13. des. 2004 og var af annarri undirtegunden hinir eða canutus. Þetta er í fyrsta skipti sem vitað er til þess að rauðbrystingur af undirtegundinni canutus finnist á Íslandi. Þessi undirtegund hefur vetursetu í Vestur-Afríku en varpstöðvarnar eru í Síberíu. Ekki er hægt að greina á milli þessara undirtegunda úti í náttúrunni en canutus er örlítið stærri og neflengri. Farleið canutus undirtegundarinnar liggur um vesturströnd Evrópu og þar blandast þessar undirtegundir saman. Ekki er því ólíklegt að þessi fugl hafi flogið af stað með röngum hópi og farið til vesturs í stað austurs.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin