Oft hefur verið talað um stundvísi kríunnar. Að hún mæti á sama degi ársins í ákveðnum stöðum ár eftir ár. En er það svo? Hvernig ætli reyndin sé hér á norðausturhorninu?
Frá árinu 2001 hefur Guðmundur Örn Benediktsson á Kópaskeri fylgst náið með komu farfugla á svæðinu frá Kelduhverfi og út á Melrakkasléttu. Til þess að fá sem réttastar upplýsingar um komutímann hefur hann ferðast skipulega um allt svæðið á vorin og leitað að farfuglum. Þessi vinna hans hefur skilað mikilli vitneskju um komutíma fuglanna, hvar þeir drepa fyrst niður fæti og hvernig þeir dreifast. Náttúrustofan hefur séð sér hag í þessum upplýsingum og styrkir nú Guðmund Örn til að halda þessu starfi áfram.
Fuglarnir eru eins og mannfólkið mis stundvísir. Sumar tegundir birtast á sömu stöðum ár eftir ár svo aðeins skeikar fáum dögum á meðan breytileikinn er talinn í vikum hjá öðrum. Lóuþræll er sú tegund sem verður að teljast sú stundvísasta. Á þessum sjö árum sem komutíminn hefur verið athugaður á norðausturhorninu hefur lóuþrællinn alltaf mætt á þriggja daga tímabili frá 29. apríl til 1. maí. Krían lendir í 8 sæti yfir stundvísustu fuglana því 12 dagar eru á milli fyrstu og síðustu komudaga hennar. Stormmáfurinn er hins vegar sú tegund sem minnst má stóla á. Munurinn á fyrsta og síðasta komudegi hans er 65 dagar eða meira en tveir mánuðir.
Gaman verður að fylgjast með þessu í framtíðinni og sjá hvort komutími farfugla eigi eftir að breytast. Spáð er að það muni hlýna á næstu árum vegna gróðurhúsaáhrifa og spurning hvernig fuglar bregðast við því. Mun lóuþrællinn stundvísi halda sig við mánaðarmótin apríl-maí eða mun hann fylgja veðráttunni.
Annars eru farfuglarnir byrjaðir að koma hingað á norðausturhornið. Sá fyrsti er venjulega að koma um mánaðarmótin janúar – febrúar. Þetta er fýllinn en meðaltími hans er 5. febrúar. Súla og rita mæta svo venjulega síðar í febrúar. Á töflunni hér fyrir neðan má sjá á hvaða tíma flestar tegundir eru að koma á svæðið. Búið er að skipta komutímunum á hálfsmánaðar tímabil og er seinni hluti aprílmánaðar sá tími þegar flestar tegundir mæta.