Dauðir svartfuglar í fjörum

Vegna frétta um mikið magn af dauðum svartfuglum við Ólafsfjörð var ákveðið að gera athugun á svartfugladauða í Þingeyjarsýslu. Sunnudaginn 13. janúar 2008 var gengið eftir þremur 500 metra löngum sniðum í sandfjörunni fyrir botni Öxarfjarðar, milli Lónsóss og Jökulsáróss. Allir fuglar sem fundust frá sjávarmáli upp í stórstraumsfjörumörk voru tíndir og þeir greindir. Um 7 cm jafnfallinn snjór var yfir öllu og því var gengið mjög þétt um fjöruna (með 5-10 metra millibili) og athugað með allar misfellur í snjónum. Hugsanlega hafa einhverjir haftyrðlar ekki fundist þar sem þeir eru litlir og erfiðara að finna þá í snjónum en hins vegar er líklegt að allir stærri fuglar hafi fundist. Athugandi fór um þessa sömu fjöru 1. janúar 2008 og þá var þar mikið um haftyrðla og örugglega meira en hér kemur fram en lítið um aðrar tegundir. Niðurstöðurnar úr þessum þremur sniðum má sjá í eftirfarnandi töflu:

 svartfuglar

Sjá má að mest var af álku og haftyrðli. Hvað haftyrðil varðar þá var búið að gera grein fyrir hrakningum hans hér á heimasíðu Náttúrustofunnar. Það sem vekur hins vegar athygli er fjöldi álka sem fannst en mun meira var af henni en langvíu og stuttnefju. Stór hluti fuglanna hafði verið étinn að hluta af öðrum fuglum (máfum, hröfnum eða fálkum) en inn á milli voru fuglar sem voru mjög heillegir. Þeir fuglar sem voru heillegir voru mjög horaðir.

svartfuglar1

Veturinn 2001-2002 rak á land óvenjumikið af dauðum svartfugli á fjörur á norðurlandi. Náttúrufræðistofnun Íslands stóð fyrir rannsókn á þeim svartfugladauða og birtust niðurstöðurnar Náttúrufræðingnum 3.-4. hefti árið 2004. Í þeirri rannsókn voru fuglar skoðaðir frá Lóni í Kelduhverfi að Þórshöfn. Í niðurstöðunum kemur fram að langvía og stuttnefja voru um 96% af þeim fuglum sem fundust en álka aðeins 1,4% og haftyrðill 0,3%. Þessir fuglar voru krufðir til að athuga hvað orðið hafði þeim að aldurtila og kom í ljós að næringarskortur hafi verið orsökin. Líklegt má telja að sama sé upp á teningnum núna en það vekur óneitanlega furðu að hlutföll tegunda séu svo ólík.

Að meðaltali voru 20 dauðir fuglar á hverju 500 metra löngu sniði. Veturinn 2001-2002 var meðaltalið 12,7 fuglar á 500 metra sniðum af sandfjörum. Varast ber þó að draga of miklar ályktanir af því þar sem einungis er um þrjú snið að ræða að þessu sinni og á takmörkuðu svæði. Fuglarnir voru mjög hnappdreifðir til dæmis voru allir fuglarnir á sniði 3 á 100 metra kafla.

svartfuglar2

Forvitnilegt er að sjá hvort þessi fugladauði haldi áfram og eins hve víða um land hans verður vart. Þess vegna vill Náttúrustofan hvetja fólk sem verður vart við mikið magn af dauðum svartfugli í fjörum að hafa samband í síma 464-0452 eða með tölvupósti á netfangið alli@nna.is.

Heimildir:
Ólafur K. Nielsen og Ólafur Einarsson 2004. Svartfugladauðinn mikli veturinn 2001-2002. Náttúrufræðingurinn 72 (3-4), bls. 117-127.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin