Geldir sniglar í Botnsvatni?

Frá árinu 2004 hefur Náttúrustofan fylgst með sundmannakláða í Botnsvatni í samstarfi við dr. Karl Skírnisson sérfræðing á Keldum. Um þetta má lesa í fréttum hér heimasíðu Náttúrustofunnar frá 9.9.2004 og 24.8.2005.  Síðastliðinn fimmtudag, 7. september, söfnuðu starfsmenn Náttúrustofunnar vatnabobbum og öndum á Botnsvatni og sendu suður til greiningar á sníkjudýrum.

Sniglar
Andaveiðar við Botnsvatni

Alls var safnað 201 vatnabobba og voru þeir allir sýktir af sníkjudýrum, oft tvær til þrjár í hverjum. Enginn vatnabobbanna sýndi merki um að vera verpandi sem er mjög merkilegt. Hugsanlegt er að þessi mikli fjöldi sníkjudýra hafi komið í veg fyrir kynþroska þeirra en það er þekkt að mikill fjöldi sníkjudýra getur gelt snigla.

sniglar1
Sniglar tíndir í Botnsvatni

Af vatnabobbunum voru 22% sýktir af fuglablóðögðu en hún veldur sundmannkláðanum.  Þetta er svipað hlutfall og í fyrra og það langhæsta sem fundist hefur á Íslandi.  Af þeim sökum er fólki ráðlagt að vera ekki að busla í vatninu seinnipart sumars og á haustin.

Af fuglum var safnað einni fullorðinni stokkandarkollu, einum rauðhöfða sem hefur komið úr eggi í vor og tveimur toppandarungum. Hvorki fundust blóðögður í stokköndinni né rauðhöfðanum en toppandarungarnir voru sýktir af blóðögðum af líklega tveimur tegundum.  Það virðist því vera að það sé toppöndin sem keyrir áfram lífsferla fuglablóðagðanna í vatninu og þar með sundmannakláða hjá þeim sem busla í vatninu.

WordPress Image Lightbox Plugin