Fréttir af sundmannakláða í Botnsvatni

Þann 16. ágúst sl. fór Náttúrustofan á stjá og safnaði sniglum í tveimur vötnum í nágrenni Húsavíkur, Botnsvatni og baðlóninu sunnan bæjarins. Tilgangurinn var að kanna hvort í sniglunum fyndust sundlirfur andablóðagða af ættkvíslinni Trichobilharzia, en þær valda svokölluðum sundmannakláða. Náttúrustofunni höfðu borist fregnir af því að sundmannakláða hefði orðið vart í Botnsvatni auk þess sem grunur lék á að um slíkt hið sama væri að ræða í baðlóninu. Sundmannakláði kom upp í Botnsvatni í fyrra og réðst Náttúrustofan í hliðstæðar rannsóknir þá eins og lesa má í frétt hér á heimasíðunni frá 9.9.2004. Rannsóknin nú var eins og í fyrra unnin í samstarfi við dr. Karl Skírnisson sérfræðing á Keldum.

Sniglunum var safnað að morgni og þeir síðan sendir suður til Reykjavíkur með flugi í „kaffivélinni“. Þar tók Karl Skírnisson við þeim og fór með þá upp að rannsóknastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum. Þar voru sniglarnir meðhöndlaðir og sýkingartíðni Trichobilharzia lirfa í þeim athuguð.

Niðurstöðurnar voru þær að sýkingartíðni í Botnsvatni nú í ár virðist mun hærri en í fyrra og er í raun um íslandsmet að ræða þar sem hvergi hefur fundist jafn há tíðni hér á landi. Í sniglum sem safnað var í baðlóninu fundust engar lirfur.

Eins og í fyrra óskar Náttúrustofan eftir upplýsingum um tilfelli sundmannakláða í Botnsvatni frá í sumar. Hægt er að senda tölvupóst á nna@nna.is eða hringja í síma 464 0450.


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin